19 Mars 2018 15:46
Vorið er að koma og þá þyngist bensínfóturinn verulega hjá sumum ökumanna í umferðinni okkar. Í liðinni viku voru 50 okumenn kærðir fyrir að aka of hratt. Hraðast ók bandarískur námsmaður á ferðalagi sínu austan Víkur á 158 km/klst hraða. Á svipuðum slóðum var annar ferðamaður, frá Hong Kong, og mældist hraði bifreiðar þeirrar sem hann ók 150 km/klst.
42 þessara mála eru komin í farveg. Álagðar sektir vegna þeirra nema 1.800.000 króna og renna þær til ríkissjóðs til góðra verka.
Ökumaður og farþegi fólksbifreiðar slösuðust þegar bifreið þeirra lenti út af veginum um Skeiðarársand þann 13. mars s.l. Báðir voru fluttir með þyrlu LHG á sjúkrahús í Reykjavík, annar með höfuðáverka en hinn minna meiddur. Fram kom í máli ökumanns að hann hafi ekki sofið í 36 tíma fyrir slysið en ætlunin hafi verið að upplifa sem mest af Íslandi í stuttri ferð. Hann kvað hinsvegar af og frá að hann hafi sofnað við akstur bifreiðarinnar í umrætt sinn.
Ökumaður fjórhjóls í Þykkvabæjarfjöru slasaðist þegar hann fór of harkalega af stað, prjónaði og fékk hjólið yfir sig með þeim afleiðingum að hann öklabrotnaði. Slysið átti sér stað þann 17. mars s.l. Sá var fluttur á sjúkahús til aðhlynningar.
Ökumaður sem stöðvaður var við akstur utan vegar á Breiðamerkursandi þann 18. mars lauk máli sínu með greiðslu sektar að upphæð 50 þúsund krónur. Ekki urðu umtalsverðar gróðurskemmdir af akstri þessum en hinsvegar sat bíllinn fastur og þurfti ökumaðurinn að leita sér aðstöðar við að ná honum lausum af vettvangi.
Ökumaður fólksbifreiðar sem stöðvuð var á Suðurlandsvegi, við Áshól, að kvöldi 17. mars s.l. reyndist ölvaður. Hann var handtekinn og fluttur á lögreglustöð á Selfossi en sleppt að yfirheyrslu lokinni.
Ökumaður sem stöðvaður var á Suðurlandsvegi við Holtsós undir Eyjafjöllum þann 14. mars s.l. af árvökulum lögreglumönnum reyndist á stolnum bíl, með stolnar skráningarplötur og hann sjálfur undir áhrifum áfengis og vímuefna. Í bílnum fannst þýfi frá ýmsum brotavettvöngum og virðist maðurinn hafa farið ránshendi um uppsveitir Árnes- og í Rangárvallasýslu áður en hann var stöðvaður. Hann gisti fangageymslur á Selfossi til næsta dags enda óviðræðuhæfur vegna ástands síns. Við yfirheyrslur daginn eftir gat hann litlar skýringar gefið á ferðalagi sínu. Bílnum reyndist hann hafa stolið í Reykjavík og númeraplötum í innbroti í tjaldvagnageymslu í Heiðarbæ í Flóahreppi. Á leið þangað hafði hann m.a. stolið úr bílum ferðamanna við Þingvelli og á Laugarvatni og úr veitingahúsi í uppsveitum Árnessýslu. Þaðan lá leiðin m.a. í íbúðarhús á Rauðalæk þar sem tölvubúnaði var m.a. stolið og í bíl við Seljalandsfoss þar sem greiðslukortum ferðamanna var stolið og reyndi kappinn að nota þau í hraðbanka á Hvolsvelli (leiðrétt 20.03.18 var ranglega skráð á Selfossi).