19 Apríl 2018 13:02
Alls sinnti lögreglan 244 verkefnum á tímabilinu. Flest þeirra voru tengd umferðinni og þar má nefna að lögregla hafði afskipti af 37 ökumönnum vegna umferðarlagabrota og þar af voru 30 ökumenn stöðvaðir fyrir hraðakstur. Lögregla sinni 6 umferðaróhöppum en ekki voru slys á ökumönnum eða farþegum í þeim.
Þann 2. apríl lentu fjórar þotur Icelandair á Egilsstaðaflugvelli og sinnti lögreglan gæslu við flugvöllinn vegna þess.
Nokkuð var um að lögregla þyrfti að hafa afskipti af fólki vegna heimilisónæðis og ölvunar.
Þann 14. apríl var haldin hópslysaæfing í Norðfirði og tókst hún með ágætum, nokkuð reyndi þó á viðbragðsaðila vegna fjölda slasaðra sem fluttir voru á sjúkrahúsið í Neskaupstað. Að æfingunni komu allflestir viðbragðsaðilar á frá öllu Austurlandi. Mikið ringdi á meðan æfingunni stóð sem gerði viðbragðsaðilum ekki auðveldara fyrir á vettvangi.
Að lokum er þarft að minna ökumenn á að núna 1. maí næstkomandi munu sektir vegna umferðarlagabrota hækka mikið. Nefna má t.d. að sekt fyrir að tala í farsíma án handfrjálsbúnaðar hækkar úr 5000 kr í 40.000 kr.
Lögreglan á Austurlandi vill óska austfirðingum sem öllum landsmönnum gleðilegs sumars.