10 Ágúst 2016 09:29
Lögreglan hafði í nógu að snúast í liðinni viku og þá sérstaklega í kringum hóp manna sem voru til vandræða. Um er að ræða fjóra aðila sem áður hafa komið við sögu lögreglu vegna hinna ýmsu mála. Aðfaranótt 3. ágúst sl. brutust þessir aðilar inn í Íþróttamiðstöðina en engu var hins vegar stolið og eina tjónið var að ein rúða var brotin. Þeir náðust skömmu síðar og fengu að gista fangageymslur lögreglu þar til þeir voru skýrslutækir.
Þrír þessara aðila voru síðan aftur á ferðinni að morgni 5. ágúst sl. þegar einn þeirra gekk í skrokk á einum félaga sinna auk annars manns sem var þeim ótengdur. Áður höfðu þessir þrír farið inn í reykkofa há Grími kokki og síðan brotist inn í geymslu hjá Eyjablikk og inn í bifreið sem stóð við Bílaverkstæði Sigurjóns. Sá sem réðst á þessa tvo var í framhaldi af því úrskurðaður í gæsluvarðhald í fjórar vikur vegna árásarinnar en hann réðst m.a. á mennina með hamri að vopni.
Þá hafa lögreglumenn verið uppteknir í vikunni við að koma óskilamunum til eiganda sinna og hvetur lögreglan fólk til að skoða myndir á facebook-síðu lögreglunnar í Vestmannaeyjum því þar gætu leynst munir sem það kannast við.
Af umferðarmálum er það að frétta að einn ökumaður var stöðvaður vegna gruns um ölvun við akstur. Þá fékk einn ökumaður sekt vegna vanbúnaðar á búnaði ökutækis en ástand hjólbarða reyndist slæm. Þá var einn ökumaður sektaður fyrir akstur gegn rauðu ljósi á Strandvegi.