11 Janúar 2016 16:08
Lögreglan hafði í ýmsu að snúast í liðinni viku en að vanda komu inn á borð lögreglu hin ýmsu mál m.a. kviknaði í ruslatunnum á Hásteinsvegi sem líklega má rekja til skotelda og þá var líflegt yfir skemmtanalífinu og þurfti lögreglan að hafa afskipti af nokkrum gestum öldurhúsanna vegna ölvunarástands þeirra.
Tvö fíkniefnamál komu upp í liðinn viku en í öðru tilvikinu var par, sem var að koma með Herjólfi til Eyja, handtekið við komina og við leit í farangri þeirra fundust ætluð fíkniefni. Um var að ræða maríhúana, kókaín og amfetamín. Viðurkenndi annað þeirra að vera eigandi að efnunum og telst málið því að mestu upplýst.
Í hinu tilvikinu var komið með smáræði af ætluðu maríhúana á lögreglustöðina sem hafði fundist um borð í Herjólfi. Leikur grunur á hver er eigandi efnisins og er málið í rannsókn.
Ein líkamsárás var kærð til lögreglu eftir skemmtanahald helgarinnar en þarna hafði maður skallað annan mann á einu af öldurhúsum bæjarins. Ekki var um alvarlega áverka að ræða en árásarmaðurinn var handtekinn og fékk að gista í fangageymslu lögreglu þar til skýrsla var tekin af honum. Málið er í rannsókn.
Þann 5. janúar sl. var lögreglu tilkynnt að seðlaveski hafi verið stolið úr fatnaði sem var í búningsklefa sundalugarinnar. Í veskinu voru m.a. skilríki og peningar. Talið er að þjófnaðurinn hafi átt sér stað sunnudaginn 3. janúar sl. Ekki er vitað hver þarna var að verki en þeir sem einhverjar upplýsingar hafa um geranda eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglu.
Alls bárust lögreglu þrjár tilkynningar vegna eignaspjalla í liðinni viku en um er að ræða skemmdir á skotbómulyftara sem var á Eiðinu en talið er að skemmdirnar hafi verið unnar á milli jóla og nýárs. Um er að ræða skemmdir á hurð lyftarans.
Þá var lögreglu tilkynnt um skemmdir á neti í sparkvegg Eimskipshallarinnar, en skorið hafði verið á netið þannig að það er ónýtt. Talið er að skemmdirnar hafi verið unnar að kvöldi 29. desember sl.
Þann 10. janúar sl. var lögreglu tilkynnt um að brotin hafi verið rúða í útidyrahurð að Áshamri 57.
Ekki er vitað hver eða hverjir voru að verki í þessum þremur tilvikum en þeir sem einhverjar upplýsingar hafa um það eru beðnir um að setja sig í samband við lögreglu.
Alls liggja fyrir 30 kærur vegna brota á umferðarlögum en flest brotin tengjast ólöglegri lagningu ökutækja eða 28. Þau tvö sem út af standa eru vegna vanrækslu á að nota öryggisbelti í akstri.