4 Júlí 2007 12:00
Einn dómurinn sem Ragnar H. nefnir í seinni grein sinni er sk. málverkamál. Niðurstaða Hæstaréttar féll þannig að þrír dómarar sýknuðu en tveir dómarar vildu sakfella. Héraðsdómur skipaður þremur dómurum sakfelldi. Ef þetta mál á að vera slíkur áfellisdómur yfir ákæruvaldinu í efnahagsbrotum sem Ragnar H. gefur til kynna ætti hann að reyna að setja sig inn í stöðu ákæruvaldsins þegar það metur líklega niðurstöðu af umfjöllun dómstóla um mál sín. Þótt vissulega sé enginn vafi á hver hin lagalega bindandi niðurstaða er í málinu er það staðreynd að 5 af 8 dómurum sem fjölluðu um málið töldu það nægja til sakfellingar. Málatilbúnaður ákæruvalds í málinu var ekki fjarstæðukenndari en svo í huga meirihluta þessara dómara. Við lærum af þessum niðurstöðum, þær setja fordæmi sem gildir eftir það, verði ekki breyting á dómaframkvæmd sem stundum gerist.
Í öllum þessum tilfellum var sakfellt eins og hundruðum annarra mála. Auðvitað finnst Ragnari H. þessi mál auðvirðileg og léttvæg, sennilega fyrir það eitt að málatilbúnaður ákæruvaldsins skilaði árangri. Auðvitað má gera betur og ég hvet alla sem telja sig hafa góðar hugmyndir og vilja leggja okkur lið til að koma þeim á framfæri. Ef Ragnar H. skoðaði skýrslu ríkisendurskoðunar sæi hann að árangur efnahagsbrotadeildar er síst lakari og að mörgu leyti betri en í nágrannalöndunum. Málaflokkurinn er erfiður og ákvarðanir um ákæru og niðurstöður dóma munu verða umdeildar. Við gerum best í að gera kröfur til okkar og leita leiða til að gera betur hvort sem það er með skoðun á störfum og skipulagi lögreglu og ákæruvalds, eða með því að löggjafinn, fjárveitingavaldið og dómstólar leggi okkur lið með vandaðri löggjöf, viðunandi fjárhagslegum stuðningi og vandaðri meðferð mála fyrir dómi. Í þessu er enginn undanþeginn ábyrgð. Þetta er viðfangsefni samfélagsins en ekki einkamál lögreglu og ákæruvalds. Þetta er ekki fallið til vinsælda eða ríkidæmis, en einhver verður að sinna þessu, Ragnar!
Höfundur er saksóknari efnahagsbrota.