19 Júlí 2004 12:00
Embætti yfirdýralæknis og landnýtingarráðnautur Bændasamtaka Íslands hafa sent embætti ríkislögreglustjóra og fleirum tilkynningu um atriði er lúta að lausagöngu búfjár og hvernig sporna megi gegn því að einkum sauðfé, hross og nautgripir komist inn á vegsvæðin eins og dæmi eru um. Er tekið fram að þörf sé á aðstoð lögreglu til að fylgjast með og skrásetja hvar hætta er vegna ferða eða nálægðar búfjár og til að vara viðkomandi sveitarfélög og í sumum tilfellum eigendur búfjár og jarða við hættunni sem lausagöngu fylgir. Nú fer í hönd mikil umferðarhelgi eins og flestar helgar sumarsins. Er full ástæða til að hvetja ökumenn að sýna varúð þegar ekið er um vegi landsins og hafa í huga þá stórfelldu slysahættu sem stafað getur af lausagöngu búfjár. Embætti ríkislögreglustjóra hefur sent öllum lögreglustjórum ábendingar í þessu sambandi og hvatt þá til að hlutast til um úrbætur í umdæmum þar sem þeirra er þörf.