10 September 2008 12:00
Nemendur í Grundaskóla á Akranesi hófu í dag formlega verkefnið Göngum í skólann með því að ganga með lögreglustjóranum á Akranesi, forseta ÍSÍ, formanni Umferðarráðs, kennurum skólans og fleirum í nágrenni skólans.
Verkefninu er ætlað að hvetja nemendur, foreldra og starfsmenn skóla til að ganga eða fara á annan virkan hátt til og frá skóla. Með því hreyfa allir sig meira, minni umferð verður við skólana og ganga um hverfið vekur fólk til vitundar um sitt nánasta umhverfi og öryggi í umferðinni.
Ísland er að taka þátt í annað sinn í alþjóðlega verkefninu Göngum í skólann. Verkefnið hófst í Bretlandi árið 2000 og var metþátttaka í fyrra þar sem milljónir skólabarna frá 42 löndum tóku þátt. Á alþjóðavísu er göngum í skólann mánuðurinn í október og alþjóðlegi Göngum í skólann dagurinn er 8. október.
Bakhjarlar Göngum í skólann eru Lýðheilsustöð, Umferðarstofa (ásamt móðurskólum í umferðarfræðslu), Ríkislögreglustjóri, Menntamálaráðuneytið, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og Heimili og skóli.
Lögreglan er þátttakandi í þessu verkefni og mun leggja sérstaka áherslu á eftirlit með umferð í nágrenni við skóla þar sem búast má við auknum fjölda barna gangandi til og frá skóla.
Allir grunnskólar í landinu hafa verið hvattir til að taka þátt í Göngum í skólann og skrá skólann til leiks.
Heimasíða verkefnisins er: www.gongumiskolann.is