28 September 2012 12:00
Lögreglan á Suðurnesjum hélt uppi eftirliti með umferð við grunnskóla og leikskóla í umdæminu í vikunni. Við suma skólana var mikil umferð, en aksturinn var undantekningalaust til fyrirmyndar. Þó var rætt við einn ökumann sem hleypti barni sínu út um bílhurð er snéri að götunni og þar með umferðinni. Hann lofaði að gera slíkt ekki aftur.
Féll úr stiga og handarbrotnaði
Vinnuslys varð í Grindarvík í vikunni er maður féll úr fimm þrepa álstiga og handarbrotnaði. Verið var að klæða loft í nýju húsnæði þegar óhappið varð. Óskað var eftir aðstoð lögreglunnar á Suðurnesjum og var maðurinn fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Þaðan var hann fluttur á slysadeild Landspítala, þar sem gert var að meiðslum hans.
Með kannabistól að tína sveppi
Lögreglan á Suðurnesjum veitti athygli pilti sem var að tína sveppi á túninu við Brunavarnir Suðurnesja í vikunni. Þarna reyndist vera á ferðinni tæplega tvítugur góðkunningi lögreglu. Hann viðurkenndi að vera í sveppaleiðangri. Aðspurður gaf hann lögreglumönnum leyfi til að kíkja í bakpoka sem hann hafði meðferðis. Þar fundust vog og áhald til kannabisreykinga, auk hluta sem grunur leikur á að hafi verið teknir ófrjálsri hendi.