17 Október 2003 12:00
Árið 1999 skipaði ríkislögreglustjóri nefnd til að móta framtíðarstefnu tæknirannsókna hér á landi. Í nefndina voru skipaðir Jón H.B. Snorrason, saksóknari, sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Guðmundur Guðjónsson yfirlögregluþjónn, Bjarni J. Bogason, aðstoðaryfirlögregluþjónn, allir starfandi hjá embætti ríkislögreglustjórans, Guðmundur Sophusson, lögreglustjóri í Hafnarfirði, Hörður Jóhannesson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglustjóranum í Reykjavík og Arnar Þór Jónsson, lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu. Arnar Þór lét á tímabilinu af störfum hjá ráðuneytinu og kom ekki að niðurstöðum nefndarinnar. Þann 24. september 2003 skiluðu fjórir nefndarmenn af fimm samhljóða tillögum að breyttu fyrirkomulagi tæknirannsókna. Einn nefndarmanna skilaði séráliti. Ríkislögreglustjóri hefur fallist á tillögur meirihluta nefndarinnar og mælt með því við dómsmálaráðherra að þeirri skipan verði komið á. Til að svo megi verða þarf að gera breytingar á 5. gr. og 8. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og 4. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 396/1997, um stjórn lögreglurannsókna og samvinnu lögreglustjóra við rannsókn opinberra mála. Þá gerði ríkislögreglustjóri ríkissaksóknara grein fyrir niðurstöðum nefndarinnar.
Niðurstöður meirihlutans fela í sér eftirfarandi fyrirkomulag:
Ríkislögreglustjórinn starfrækir tæknistofu, sem hefur eftirlit með framkvæmd tæknirannsókna lögreglu á landsvísu, þar með talið starfrækslu miðlægra gagnagrunna lögreglu á sviði tæknirannsókna. Ríkislögreglustjórinn annast erlent samstarf og samskipti vegna tæknirannsókna, heldur skrá um horfið fólk, hefur umsjón með störfum kennslanefndar (ID-nefnd) og útgáfu leiðbeininga og verklagsreglna um tæknirannsóknir, sem ríkislögreglustjóri setur.
Við embætti lögreglustjórans í Reykjavík skal starfrækt tæknideild sem sinnir vettvangsrannsóknum, samanburðarrannsóknum og öðrum slíkum rannsóknum og varðveitir fingrafara- og ljósmyndasafn lögreglu og heldur því við. Tæknideildin skal þjóna öllum lögregluumdæmum landsins. Ríkislögreglustjóri setur reglur um starfrækslu tæknideildarinnar.
Með bréfi dómsmálaráðuneytisins, dags. 8. október 2003, er fallist á framangreindar tillögur ríkislögreglustjóra og leggur ráðuneytið til að þegar í stað verði hafinn undirbúningur að umræddum breytingum. Lagaskrifstofu ráðuneytisins hefur verið falið að undirbúa nauðsynlegar lagabreytingar til samræmis við nýtt fyrirkomulag tæknirannsókna.
Við breytingarnar er gert ráð fyrir tilfærslu verkefna frá ríkislögreglustjóranum til lögreglustjórans í Reykjavík. Þegar er hafin undirbúningsvinna á milli embættanna vegna þessara breytinga og er stefnt að því að þeirri vinnu verði lokið hið allra fyrsta. Gert er ráð fyrir því að 1.5. starfsmenn færist frá ríkislögreglustjóranum til lögreglustjórans í Reykjavík og þau tæki og gögn sem koma til með að falla undir verksvið tæknideildar lögreglustjórans í Reykjavík.
Sjá nánar um tæknirannsóknir á kynningarvef embættisins >>
Bjarni J. Bogason, aðstoðaryfirlögregluþjónn, vinnur við svokallaða fingrafaratölvu
Ljósmynd: Júlíus Sigurjónsson