30 Október 2012 12:00
Síðastliðin föstudag hélt embætti ríkislögreglustjóra fund jafnréttisfulltrúa lögregluembætta landsins með jafnréttisnefnd. Jafnréttisnefnd er skipuð af ríkislögreglustjóra til þriggja ára í senn en hana skipa jafnréttisfulltrúi lögreglunnar sem er jafnframt formaður nefndarinnar, fulltrúi Lögregluskóla ríkisins, fulltrúi lögreglustjórafélags Íslands, fulltrúi Landssambands lögreglumanna, fulltrúi Stéttarfélags í almannaþjónustu og fulltrúi Bandalags háskólamenntaðra starfsmanna. Jafnréttisfulltrúi embættis er skipaður af sínum lögreglustjóra, til þriggja ára í senn, en hlutverk hans er að vinna að jafnréttismálum innan síns embættis.
Á fundinum sem haldinn var í Lögregluskóla ríkisins var meðal annars farið yfir endurútgefna jafnréttisáætlun lögreglunnar, farið yfir gerð framkvæmdaáætlunar og fengið fræðsluerindi um hlutverk jafnréttisfulltrúa. Einnig var jafnréttis-, eineltis- og áreitniteymi lögreglunnar kynnt en því teymi er ætlað að vera embættunum til ráðgjafar og aðstoðar varðandi mál er varða kynbundið misrétti, kynferðislega áreitni og einelti. Teymið skipa jafnréttisfulltrúi lögreglunnar, lögfræðingur og sálfræðingur hjá embætti ríkislögreglustjóra.