30 Júlí 2004 12:00

Um kl. 10:35 að morgni 29. júlí heyrðu starfsmenn hjá Ferðafélagi Íslands og áhugamaður um fjarskipti neyðarkall í gegnum talstöð á rás 42 frá manni sem talaði íslensku og sagðist vera á ferð með 20 Frakka og hópurinn væri allur veikur og þeir þyrftu aðstoð þyrlu hið fyrsta.  Þá þegar hófst eftirgrennslan lögreglu og um hádegi leit björgunarsveita.

Ekki kom fram í neyðarkallinu staðsetning hópsins en með hliðsjón af þeirri rás sem var notuð, hefur verið lögð  áhersla á leit á sunnanverðu landinu.

Haft hefur verið samband við fjölda ferðaþjónustuaðila auk margra sem á ferð eru um hálendið.  Enginn sem rætt hefur verið við hefur orðið hópsins var.  Skipulögð leit hefur verið frá hádegi í gær um allt sunnanvert hálendið, farið hefur verið í skála, slóðar eknir, gil könnuð, þekktir tjaldstaðir skoðaðir og aðrir staðir. Að leitinni hafa til þessa komið 25 björgunarsveitabílar, 120 leitarmenn auk þyrlu Landhelgisgæslunnar og starfsliðs lögreglu.

Nú um hádegi komu saman þeir aðilar sem stjórnað hafa aðgerðum og báru saman bækur sínar.

Ákveðið var að leita áfram á þeim svæðum sem þegar hafa verið skipulögð og halda áfram frekari eftirgrennslan samkvæmt þeim vísbendingum sem berast.  Ákveðið var að stjórn aðgerða flyttist til Ríkislögreglustjórans og Landsstjórnar björgunarsveita.

Því er beint til almennings að gera lögreglu viðvart í síma 112 með upplýsingar sem gætu átt við í þessu máli.

30. júlí 2004

Ríkislögreglustjórinn

Lögreglustjórinn í Rangárvallasýslu

Lögreglustjórinn í Árnessýslu

Landsstjórn björgunarsveita

Svæðisstjórnir björgunarsveita á svæði 3,4,16 og 17

Tengiliður:         Jónína Sigurðardóttir

                        Fjarskiptamiðstöð lögreglu       

                        S: 897-6505