31 Ágúst 2009 12:00
Fréttablaðið greindi frá því laugardaginn 28. ágúst að vélhjólaklúbburinn Fáfnir hefði öðlast viðurkenningu sem stuðningsaðili Hells Angels samtakanna hér á landi.
Af þessu tilefni vill ríkislögreglustjóri taka fram eftirfarandi:
Upplýsingar þessar koma ekki á óvart og eru í fullu samræmi við það sem fram hefur komið í skýrslum ríkislögreglustjóra þar sem mat er lagt á skipulagða glæpastarfsemi hér á landi.
Í opinni útgáfu af skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra sem birt var í febrúarmánuði segir m.a.:
Íslenski vélhjólaklúbburinn Fafner MC-Iceland (Fáfnir) hefur hlotið viðurkenningu sem stuðningsklúbbur Hells Angels hér á landi. Þar með hefur hópur manna á Íslandi stofnað til formlegra tengsla við alþjóðleg glæpasamtök. Fyrir liggur að félagar í Fafner MC-Iceland stefna að fullri aðild að Hells Angels-samtökunum
Alls staðar þar sem Hells Angels hafa náð að skjóta rótum hefur aukin skipulögð glæpastarfsemi fylgt í kjölfarið. Spenna ríkir í heimi skipulagðra glæpahópa vélhjólamanna á Norðurlöndum. Nýir hópar láta nú til sín taka og er þar oft um að ræða svonefnda stuðningsklúbba við þekkt glæpasamtök á borð við Hells Angels. Jafnframt skipta vélhjólagengi á Norðurlöndum um bandamenn auk þess sem hin rótgrónari reyna nú ákaft að styrkja stöðu sína og afla nýrra meðlima. Í Danmörku hafa félagar í Hells Angels mjög látið til sín taka í átökum sem þar hafa blossað upp og tengd eru skipulagðri glæpastarfsemi innflytjendagengja og vélhjólamanna.
Ríkislögreglustjórar Norðurlandanna mótuðu þá skýru stefnu fyrir allnokkrum árum að berjast gegn skipulagðri glæpastarfsemi mótorhjólagengja. Embætti ríkislögreglustjóra á Norðurlöndum vinna í sameiningu að þessu markmiði sem mörgum öðrum.
Staðfest er að vélhjólklúbburinn Fáfnir mun að öllu óbreyttu geta sótt um fulla aðild að Hells Angels samtökunum á seinni hluta næsta árs.
Tilraunir Hells Angels til að ná fótfestu á Íslandi má rekja ein sjö ár aftur í tímann, hið minnsta. Viðbrögð lögreglu og tollgæslu hafa jafnan verið á sama veg. Ítrekað hefur komið til þess að hópar erlendra liðsmanna Hells Angels hafi verið stöðvaðir við komu til landsins og þeim meinuð landganga. Yfirleitt hefur verið gripið til slíkra ráðstafana eftir að borist hafa upplýsingar um að í ráði séu veisluhöld á vegum Fafner MC-Iceland með þátttöku erlendra félaga í Hells Angels.
Þetta gerðist síðast í marsmánuði á þessu ári er ákveðið var að taka upp tímabundið landamæraeftirlit á innri landamærum Schengen-svæðisins í samræmi við 2. mgr. 2. gr. Schengen-samningsins eftir að aflað hafði verið upplýsinga um að fjölmargir erlendir félagar í Hells Angels hygðust sækja íslenska félaga sína heim.
Færa má rök fyrir því að hörð viðbrögð lögreglu á síðustu árum við heimsóknum félaga í Hells Angels hingað til lands hafi reynst fallin til að tefja fyrir fullri aðild Fafner MC-Iceland að samtökunum. Við framkvæmd þessarar stefnu hefur góð samvinna við frændþjóðir á Norðurlöndum reynst sérlega mikilvæg.
Stýrihópur
Um árabil hefur verið starfræktur sérstakur stýrihópur sem stýrt hefur baráttu yfirvalda gegn skipulagðri glæpastarfsemi vélhjólagengja. Þetta gerir hópurinn m.a. með því að samhæfa krafta lögreglu og annarra yfirvalda.
Stýrihópur ríkislögreglustjóra kom saman til fundar í dag, mánudaginn 31. ágúst, og var þar farið yfir fyrirliggjandi upplýsingar um umsvif Hells Angels hér á landi. Sem fyrr sagði eru upplýsingar þær sem birtust í Fréttablaðinu í samræmi við skýrslur sem unnar hafa verið á síðustu árum á vegum embættis ríkislögreglustjóra.
Minnt skal á að lögregla og tollgæsla á Norðurlöndum hafa aukið samstarf sitt, m.a. varðandi skipulagða glæpastarfsemi en sameiginlegur fundur þessara aðila var haldinn á Íslandi í septembermánuði 2008.
Vaxandi samfélagsógn
Í Danmörku og þá sérstaklega í Kaupmannahöfn hefur skálmöld ríkt á síðustu misserum vegna harðvítugra átaka innflytjendagengja og félaga í Hells Angels og stuðningsklúbbum þeirra. Í þeim átökum hefur skotvopnum m.a. verið beitt og hafa félagar í stuðningsklúbbum Hells Angels mjög látið til sín taka.
Í Noregi hefur félögum í samtökum vélhjólamanna sem tengjast skipulagðri glæpastarfsemi fjölgað mjög á undanliðnum árum. Sömu þróun má greina víðar í nágrannalöndum Íslendinga.
Þróunin á Íslandi hefur um margt líkst þeirri sem greina hefur mátt á Norðurlöndum á síðustu árum og vikið er að í opinni útgáfu skýrslu greiningardeildar frá því fyrr í ár. Á það ekki síst við um markvissa viðleitni til að koma upp kerfi stuðningsklúbba hér á landi.
Á Norðurlöndum líta stjórnvöld á skipulögð glæpasamtök vélhjólamanna á borð við Hells Angels sem vaxandi samfélagsógn. Í Danmörku hafa stjórnvöld vakið máls á þeim möguleika að bann verði lagt við starfsemi vélhjólagengja á borð við Hells Angels. Í maímánuði í ár lýsti þáverandi dómsmálaráðherra Danmerkur yfir því að hann teldi slíkt bann vel koma til álita.
Þróunin á Íslandi sem og í nágrannaríkjunum kallar á að aukinn þungi verði lagður í baráttu gegn þessari birtingarmynd skipulagðrar glæpastarfsemi. Mikilvægt er að samræmd viðbrögð hér á landi njóti víðtæks stuðnings í samfélaginu. Jafnframt liggur fyrir að nauðsynlegt er að tiltæk úrræði verði tekin til endurskoðunar. Í því efni telur ríkislögreglustjóri að huga beri að lagabreytingum til að auðvelda lögreglu að bregðast við þessari samfélagsógn.
Ríkislögreglustjórinn