12 Ágúst 2011 12:00
Vegna ummæla lögfræðings Sjálfstæðisflokksins í kvöldfréttum Ríkissjónvarps í gærkvöldi um málsmeðferð efnahagsbrotadeildar á kæru hans til deildarinnar vill ríkislögreglustjóri geta um eftirfarandi:
Nýverið var því haldið fram í fréttum RÚV af formanni Lögmannafélags Íslands að dæmi séu um að efnahagsbrotadeild fari fram á það við kærendur að þeir afli gagna sem aðeins embættið sjálft er í aðstöðu til að afla. Formaðurinn nefndi hins vegar engin dæmi um slíkt og var þessari fullyrðingu vísað á bug. Bent var á að efnahagsbrotadeild berast kærur sem vísa þarf frá af ýmsum ástæðum eða kæranda er gefinn kostur á að bæta úr þar sem kærurnar uppfylla ekki skilyrði um opinbera rannsókn. Kæra Sjálfstæðisflokksins er þeim annmörkum háð og var kæranda ítrekað gefinn kostur á að bæta úr annmörkum kærunnar, en mikil bókhaldsgögn fylgdu kærunni.
Sú sjálfsagða krafa er gerð að kærendur þurfa að rökstyðja kærur sínar og kæruefni enda geta þeir borið ábyrgð að lögum á röngum kærum og sakargiftum. Efnahagsbrotadeild hefur óskað eftir svörum við ákveðnum staðhæfingum sem kærandi hefur haldið fram en samræmdust ekki gögnum málsins. Þeim hefur ekki verið svarað.
Yfirlýsingar um að játning liggi fyrir í máli þessu eru ekki frá efnahagsbrotadeild komnar enda hefur enginn verið yfirheyrður af lögreglu.