25 Ágúst 2007 12:00
Leit að tveimur þýskum ferðamönnum við Svínafellsjökul verður framhaldið í dag.
Undir lok leitar í gærkvöldi fundust spor í um 1700m hæð við Hrútfallstinda á mjög erfiðu svæði. Strax í morgun var flogið með sérþjálfaða klifurmenn þangað og munu þeir leita það svæði eins og hægt er í dag.
Um 110 björgunarmenn í 23 hópum eru við störf á svæðinu og vinna sem stendur að 22 verkefnum. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GNÁ, er einnig við leit á svæðinu.
Fyrstu hópar lögðu af stað til leitar kl.06:00 í morgun og fara þeir þekktar gönguleiðir á Hrútfjallstinda og á Hvannadalshnjúk. TF-GNÁ hefur í morgun ferjað fjölda hópa til leitar á svæðinu og telja stjórnendur leitarinnar að þyrlan hafi þegar sparað leitarmönnum 300 klst. í göngu með því að hægt var að fljúga með þá upp í fjallið.
Eins og undanfarna daga munu hóparnir verða við störf fram í myrkur.
Ríkislögreglustjórinn
Slysavarnafélagið Landsbjörg
Lögreglustjórinn á Eskifirði