13 Febrúar 2014 12:00
Eins og fram er komið voru karl og kona handtekin á heimli sínu á Stokkseyri í gær. Aðdragandi aðgerðanna var sá, að ungur karlmaður leitaði til lögreglu skömmu eftir hádegi í gær og skýrði frá því að honum hefði verið haldið nauðugum í herbergi í íbúðarhúsi parsins á Stokkseyri og hann beittur ofbeldi og hótunum. Lögregla greip þegar í stað til viðeigandi ráðstafana og fór á vettvang og handtók parið sem var flutt til yfirheyrslu á Selfossi. Tæknideild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu framkvæmdi tæknirannsókn á vettvangi. Við yfirheyrslur sakborninga, vitna og að teknu tilliti til niðurstöðu tæknirannsóknar tók rannsókn málsins nýja stefnu. Grunur vaknaði um að meintur brotaþoli hefði sagt ranglega frá frelsissviptingunni. Hann var handtekinn í framhaldinu og fékk réttarstöðu sakbornings og mun verða kærður fyrir rangar sakargiftir. Yfirheyrslum yfir honum mun væntanlega ljúka í dag. Parið var látið laust í gærkvöldi eftir yfirheyrslur. Karlinn viðurkenndi að hafa staðið að ræktun 22ja kannabisplantna sem fundust í húsinu. Rannsókn málsins er langt komið og lýkur væntanlega í dag.