4 September 2015 11:24
Lögreglan á Suðurnesjum hafði í vikunni afskipti af fjórum ökumönnum sem allir reyndust aka undir áhrifum fíkniefna. Einn þeirra ók undir áhrifum amfetamíns og hafði ekki öðlast ökuréttindi. Annar var með fíkniefni falin undir ökumannssætinu. Með honum í bílnum var farþegi sem einnig var með fíkniefni sem hann hafði falið í bakpoka sínum.
Þriðji ökumaðurinn sem ók undir áhrifum fíkniefna var einnig staðinn að hraðakstri. Þá tilheyrði skráningarmerkið sem var á bifreið hans annarri bifreið. Sá fjórði reyndist hafa neytt amfetamíns og metamfetamíns, að því er sýnatökur á lögreglustöð staðfestu.