19 Febrúar 2011 12:00
Fjórir menn eru í haldi lögreglunnar á Selfossi vegna líkamsárásar síðdegis í dag. Tveir menn tilkynntu til lögreglunnar að þeir hefðu verið á gangi skammt frá N1 á Selfossi þegar pallbifreið, sem í voru fjórir menn, hefði ekið að þeim. Mennirnir fóru út úr bifreiðinni og einn var með öxi. Hann réðist að öðrum manninum og sló til hans með öxinni. Árásarþolanum tókst að víkja undan fyrsta og öðru höggi. Árásarmanninum tókst að koma einum þremur lausum höggum í manninn sem féll í götuna. Við það yfirgáfu fjórmenningarnir vettvanginn. Sá sem ráðist var á slapp með minni háttar áverka. Leitað var eftir aðstoð Sérsveitar ríkislögreglustjóra til að leita að mönnunum og handtaka. Innan við klukkustund var búið að ná öllum mönnunum fjórum. Tveir þeirra fundust á Eyrarbakka og hinir tveir á Selfossi. Árásarmennirnir og sá sem ráðist var á þekktust og er grunur um að árásin tengist fíkniefnaviðskiptum. Rannsókn málsins beinist meðal annars að því og mun hún standa fram á kvöld en halda síðan áfram í fyrramálið. Árásarmennirnir losuðu sig við öxina á Selfossi og hún er ófundin. Í morguns árið verður tekin afstaða til þess hvort farið verður fram á gæsluvarðhald á þeim sem var ráðandi í árásinni. Frekari upplýsingar munu ekki liggja fyrir um málið að svo stöddu.