10 Maí 2013 12:00
Lögreglan á Suðurnesjum handtók í gær sex ökumenn sem allir óku undir áhrifum fíkniefna. Um var að ræða fimm karlmenn og eina konu. Sýnatökur staðfestu að allir ökumennirnir höfðu neytt kannabis og flestir einnig amfetamíns. Til viðbótar við þessi efni hafði einn þeirra neytt metamfetamíns og kókaíns og annar ópíumskylds efnis. Einn ökumannanna var að auki með fjóra poka með kannabisefnum í undir bílstjórasæti bifreiðarinnar sem hann ók og fann lögregla efnin við leit.
Í framhaldi af þessu fór lögregla í húsleit á dvalarstað umrædds ökumanns og fann þar amfetamín, sem geymt var í frysti í eldhúsinu. Þá voru haldlagðar fartölvur, sem grunur leikur á að séu þýfi, auk umbúða utan af tölvunum.
Flestir ofangreindra ökumanna hafa komið við sögu hjá lögreglu áður, meðal annars vegna fíkniefnamála.
Bíræfnir olíuþjófar handteknir
Lögreglan á Suðurnesjum handtók í fyrradag tvo tæplega tvítuga karlmenn sem játuðu stórfelldan þjófnað á olíu af vinnuvélum og vörubifreiðum vítt og breitt í umdæminu á undanförnum mánuðum. Þeir höfðu einnig látið greipar sópa í fleiri umdæmum. Annar mannanna reyndist vera með litaða olíu á einkabifreið sinni og varð það til þess að margítrekuð brot mannanna komust upp. Höfðu þeir í flestum tilvikum verið saman við að stela eldsneytinu. Til þess notuðu þeir nokkra brúsa og slöngu til að sjúga olíuna upp. Er talið að mest hafi þeir náð að stela um 180 lítrum í einni ferð, en í flestum hinna tilvikanna um 100 lítrum. Þeir tíðu olíuþjófnaðir sem tilkynntir hafa verið til lögreglunnar á Suðurnesjum á undanförnum misserum teljast því upplýstir.