1 Mars 2012 12:00
Í gærdag lagði lögreglan á Akureyri hald á um 300 grömm af ætluðu MDMA dufti. MDMA sem er virka efnið í e-töflum er nú farið að finnast í auknum mæli í duftformi og er iðulega sterkara en í töfluformi. Einnig var framkvæmd húsleit í íbúð á Akureyri þar sem hald var lagt á lítilræði af fíkniefnum, lyfjum og tæki og tól til fíkniefnaneyslu. Þann 26. febrúar s.l. lagði lögreglan einnig hald á um 100 grömm af kannabisefnum og handtók í tengslum við það pilt um tvítugt sem játaði að eiga efnin og að hafa ætlað þau til sölu. Lögreglumenn í eftirliti veittu piltinum athygli og er hann varð þeirra var tók hann á rás en náðist eftir nokkra eftirför. Á flóttaleið hans fundust síðan fíkniefnin falin í sandkassa. Götuandvirði þessara haldlögðu efna nemur allt að nokkrum milljónum króna. Málin eru í rannsókn.
Sem fyrr minnir lögreglan á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.