2 Apríl 2013 12:00
Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði í nótt ökumann vegna gruns um að hann æki undir áhrifum fíkniefna. Megna fíkniefnalykt lagði af honum þegar lögreglumenn ræddu við hann, og var hann beðinn um að færa sig yfir í lögreglubifreið, þar sem hann framvísaði fíkniefnum, sem hann var með í fórum sínum. Hann var handtekinn og færður á lögreglustöð, þar sem sýnatökur staðfestu að hann hafði neytt kannabis. Bifreiðin sem hann ók reyndist hættuleg í umferðinni, þar sem hemla- og ljósabúnaður voru í ólagi. Var hún boðuð í skoðun.
Í gærkvöld handtók lögregla annan ökumann, sem reyndist hafa neytt amfetamíns, metamfetamíns og fleiri fíkniefna. Við hægra framsæti í bifreið hans fannst amfetamín, sem farþegi í henni kvaðst eiga.
Ölvaður til vandræða í Leifsstöð
Lögreglan á Suðurnesjum var í fyrrakvöld kvödd í Flugstöð Leifs Eiríksonar þar sem ölvaður maður var til vandræða í komusal. Hafði hann meðal annars ýtt við tollverði og farið úr af ofan. Lögreglumenn ræddu við manninn sem var mjög ölvaður og illskiljanlegur. Þeir gerðu honum grein fyrir því að hann væri ekki lengur velkominn í flugstöðinni vegna ástands síns og báðu hann að fylgja sér út. Hann rölti með þeim af stað, en spyrnti svo við fótum og heimtaði að fá að kaupa áfengi í fríhöfninni. Lögreglumenn gerðu honum grein fyrir að það væri ekki í boði og sló hann þá í einn þeirra. Hann var þá handjárnaður og fluttur á lögreglustöð þar sem hann var látinn sofa úr sér.