30 Desember 2004 12:00
Miðvikudaginn 29 desember 2004 var haldinn fundur í Vísindamannaráði almannavarna þar sem rætt var hvort sjávarflóð eins og það, er varð í kjölfar jarðskjálfta í Suðaustur-Asíu á annan jóladag, væru áhyggjuefni á Íslandi.
Aðstæður á Atlantshafi eru þannig að líkur á stórum flóðbylgjum vegna jarðskjálfta eru litlar og jarðskjálftar við Ísland ekki þess eðlis að þeir valdi teljandi flóðbylgjum. Hins vegar geta orðið sjávarflóð við Ísland, einkum vegna veðurs og hárrar sjávarstöðu og eru slíkir atburðir vel þekktir. Skriður ofan af landi og á landgrunnsbrúninni á hafsbotni, t.d. í sambandi við eldgos, geta einnig valdið flóðum. Þessi flóð eru af allt öðru tagi og oftast miklu minni en hamfarirnar í Asíu, þar sem tugir þúsunda manna hafa dáið. Sjávarflóð á Íslandi, sem geta og hafa valdið tjóni á mannvirkjum, hafa yfirleitt talsverðan aðdraganda og því gefst tími til viðvörunar.
Í þeim löndum, sem urðu fyrir flóðbylgjunni í Indlandshafi, virðast viðvörunarkerfi ekki hafa virkað eða hreinlega ekki verið til staðar. Þá skorti einnig á að almenningur væri upplýstur um rétt viðbrögð við slíkri náttúruvá. Á Kyrrahafi, t.d. við Japan, er virkt kerfi þar sem viðvörunum um flóðbylgjur er komið á framfæri ef nauðsynlegt þykir. Á Íslandi er virkt bráðavárviðvörunarkerfi í þróun vegna jarðskjálfta og eldgosa og er mikilvægt að halda því vel við og efla enn frekar. Slíkt kerfi á alþjóðavísu gæti dregið úr afleiðingum náttúruhamfara eins og urðu á Indlandshafi.