31 Október 2012 12:00
Kveikt var í ruslatunnu, sem stóð við timburskjólvegg við íbúðarhúsnæði í Reykjanesbæ. Svo virðist sem einhvers konar spreybrúsi hafi sprungið í brunanum og voru leifar hans við hlið tunnunnar þegar að var komið. Snarráður maður og félagi hans, sem voru að vinna við hús í nágrenninu, hlupu til og slökktu eldinn áður en tjón hlaust af. Ruslatunnan var þá að mestu brunnin.
Þetta er í annað skipti á skömmum tíma sem athæfi af þessu tagi er tilkynnt til lögreglunnar á Suðurnesjum, því fyrr í mánuðinum voru tvær ruslatunnur teknar af hefðbundnum stað framan við íbúðarhús og settar upp við vegg fyrir aftan það. Þar var kveikt í þeim og munaði minnstu að illa færi. Lögregla rannsakar málin.
Husky hundur lagðist á fé
Fjáreigandi í Sandgerði tilkynnti lögreglunni á Suðurnesjum nýverið að hann væri með Husky hund í haldi sem hefði verið að atast í sauðfé sínu.
Í ljós kom að hundurinn hafði ráðist á kindur mannsins með þeim afleiðingum að þrjár lágu í valnum. Hundafangari tók hundinn og fór með hann í heilbrigðiseftirlit Suðurnesja eins og gert er í slíkum tilvikum. Þar kom í ljós að enginn eigandi var skráður að hundinum og var hann ótryggður. Málið er í rannsókn.