17 Október 2012 12:00
Embætti ríkislögreglustjóra vill vekja athygli almennings á aðvörun Europol vegna svikastarfsemi þar sem óværan Police Ransomware Malware er notuð og fyrirtækismerki Europol er meðal annars notað í þeim tilgangi að gera svikastarfsemina trúverðugri.
Þegar tölva sýkist af óværunni Police Ransomware Malwere læsist hún fyrir nær allri notkun. Um leið birtist aðvörunargluggi þar sem notandi fær skilaboð um að IP vistfang tölvunnar hafi verið notað í ólöglegum tilgangi, svo sem til niðurhals á höfundarvörðu efni.
Notanda tölvunnar er í framhaldi veittur sá kostur að greiða sekt með rafrænum hætti og fær leiðbeiningar þess efnis upp á skjáinn hjá sér.
Í tilkynningu frá Europol er tekið fram að hvorki Europol né aðrar löggæslustofnanir innan Evrópusambandsins innheimti sektir vegna ólöglegs athæfis með þessum hætti og því séu slíkar innheimtuaðgerðir hluti af svikastarfsemi.
Á heimasíðu Europol er að finna fréttatilkynningu þar sem fram koma nánari upplýsingar um þessa tegund svikastarfsemi ásamt gagnlegum upplýsingum um hvernig koma megi í veg fyrir og bregðast eigi við slíkri brotastarfsemi.
Frétt Europol: https://www.europol.europa.eu/content/press/europol-warning-relation-variant-police-ransomware-malware-1797
Gagnlegar upplýsingar Europol: https://www.europol.europa.eu/sites/default/files/publications/ransomware.pdf