12 Júní 2008 12:00

Í gær handtóku lögreglufulltrúar alþjóðadeildar ríkislögreglustjórans franskan karlmann á kaffihúsi í Reykjavík. Maðurinn er eftirlýstur í Schengen upplýsingakerfinu af frönskum yfirvöldum, grunaður um meiri háttar fjárdráttarbrot þar í landi. Talið er að hann hafi dregið sér sem nemur rúmlega 22 milljónum íslenskra króna. Í dag var maðurinn leiddur fyrir dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur þar sem fulltrúi ríkislögreglustjórans krafðist gæsluvarðhalds í þrjár vikur, á meðan framsalsbeiðni franskra yfirvalda er afgreidd hjá íslenskum yfirvöldum. Dómari féllst á kröfuna og úrskurðaði manninn í gæsluvarðhald til 3. júlí nk.

Ríkislögreglustjórinn

12. júní 2008