11 Nóvember 2008 12:00
Embætti ríkislögreglustjóra hefur að undanförnu þurft að gera athugasemdir við tilhæfulausan fréttaflutning DV og dv.is um að lögreglan sé að vígbúast gegn fólki, eins og slegið var upp á einni forsíðunni. Því var haldið fram að verið væri að útbúa 6 nýja óeirðabíla fyrir lögregluna og breyta stætisvagni í fjarskiptamiðstöð. Ríkislögreglustjóri sagði þessa umfjöllun uppspuna og benti jafnframt á að lögreglan ætti ekki valdbeitingarhunda né notaðist við rafbyssur í störfum sínum. Áfram var þó haldið og birtar myndir af hundinum Skolla sem drapst í ársbyrjun 2006 og hann kynntur sem starfandi valdbeitingarhundur.
Óheimilt er að þjálfa eða taka í notkun hund til valdbeitingar nema að fengnu leyfi embættis ríkislögreglustjóra samkvæmt reglum þar um. Embættið hefur ekki veitt slík leyfi.
Í DV í dag er einnig fjallað um 27 ára gamlan fornbíl sem lögreglunni í Reykjavík áskotnaðist fyrir um tveimur áratugum frá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli. Forsíðufyrirsögnin er Bryndreki löggunnar tilbúinn í óeirðirnar. Falinn á bak við byrgða glugga inni í skemmu í Hvalfirði.
Fornbílnum sem um er fjallað og er af gerðinni Chrysler Ram, árgerð 1981, hefur ekki verið breytt frá upprunalegri mynd nema hvað byssufestingar á þaki voru fjarlægðar fyrir rúmum áratug og sett á bílinn ljós og sírena. Hann er því ekki útbúinn til óeirða, en getur gagnast við vopnaðar aðgerðir lögreglu. Fornbíllinn hefur aðallega verið notaður sem æfingatæki og sýningargripur fyrir almenning, svo sem á sögusýningu lögreglunnar árið 2003, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.
Ríkislögreglustjóri, 11. nóvember 2008