15 Maí 2003 12:00
Miðvikudaginn 14. maí 2003 var haldinn lokuð námsstefna um brunarannsóknir af Brunamálastofnun og Ríkislögreglustjóra.
Þátttakendur, sem voru valdir, komu frá Löggildingarstofu, tíu lögregluumdæmum, slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, auk Brunamálastofnunar og ríkislögreglustjóra.
Dr. Björn Karlsson brunamálastjóri setti námsstefnuna og bauð þátttakendur velkomna. Þetta er önnur námsstefna um brunarannsóknir sem haldin er af Brunamálastofnun og lögreglu. Sú fyrri var haldinn af Brunamálastofnun og Rannsóknarlögreglu ríkisins árið 1990.
Ulf Erlandsson sérfræðingur SRV, Svíþjóð fór yfir framkvæmd brunarannsókna í Svíþjóð og nám sérfræðinga lögreglu og slökkviliðs í þeim efnum. Meðal annars var farið yfir nokkrar íkviknunarorsakir, tölfræði brunaorsaka, svo sem manntjón af völdum bruna, ímynd þeirra sem kveikja elda og ýmislegt fleira.
Bjarni J. Bogason fjallaði almennt um brunarannsóknir, reglur og fyrirmæli, norræna handbók um brunarannsóknir sem útgefin var í nóvember á síðasta ári. Í handbókinni, sem hefur það hlutverk að bæta og samræma eldsupptakarannsóknir, er lýst öllum smáatriðum í fullkominni brunarannsókn. Handbókin var samin af norrænum vinnuhópi skipuðum fulltrúum frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð. Hvert þessara landa gefur handbókina út sérstaklega, með það fyrir augum að hægt sé að aðlaga hana aðstæðum í viðkomandi landi. Aðalatriði handbókarinnar eru þó samhljóða fyrir öll framangreind lönd.
Í handbókinni er fjallað um slökkvistarfið, upplýsingaöflun, skoðun á brunastaðnum, eldsupptakasvæði , eldsupptök, varðveislu efna og muna, manntjón og skýrslugerð.
Guðmundur Gunnarsson yfirverkfræðingur Brunamálastofnun kynnti tölfræðiupplýsingar um bruna- og manntjón.
Frá vinstri dr. Björn Karlsson brunamálastjóri, Ulf Erlandsson sérfræðingur SRV, Svíþjóð, Bjarni J. Bogason aðstoðaryfirlögregluþjónn, tæknirannsóknastofu ríkislögreglustjórans.
Hluti námsstefnugesta.
Hluti námstefnugesta.
Ljósmyndir: Júlíus Sigurjónsson