22 Október 2020 09:51
Skráð voru 768 hegningarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu í september og fækkaði þessum brotum á milli mánaða. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir september 2020.
Heilt á litið voru meirihluti brotaflokka innan útreiknaðra marka fyrir síðustu sex og síðustu 12 mánuði á undan.
Í septembermánuð bárust færri tilkynningar um innbrot en í ágúst. Tilkynningum um þjófnaði fækkaði einnig á milli mánaða. Það sem af er ári hafa borist um fimm prósent færri tilkynningar um þjófnaði en bárust að meðaltali á sama tímabili sl. þrjú ár á undan.
Í september voru skráðar 116 tilkynningar um eignaspjöll og fækkar þessum tilkynningum á milli mánaða.
Skráðum ofbeldisbrotum fjölgaði á milli mánaða og voru það minniháttar líkamsárásir sem töldu þar mest. Tilvikum þar sem lögreglumaður var beittur ofbeldi eða hótað um ofbeldi fjölgaði einnig á milli mánaða. Álíka margar tilkynningar bárumst um heimilisofbeldi og í ágúst. Það sem af er ári hafa borist um 12 prósent fleiri tilkynningar um heimilisofbeldi en bárust að meðaltali á sama tímabili á árunum 2017-2019.
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 14 tilkynningar um kynferðisbrot sem áttu sér stað í september og fjölgar þessum tilkynningum á milli mánaða.
Skráðum fíkniefnabrotum fjölgaði á milli mánaða og var eitt stórfellt fíkniefnabrot skráð á höfuðborgarsvæðinu í september. Tilkynningum þar sem ökumaður var grunaður um akstur undir áhrifum ávana-og fíkniefna fjölgaði á milli mánaða líkt og tilkynningum þar sem ökumaður var grunaður um ölvun við akstur.
Í september voru skráð 755 umferðarlagabrot (að hraðamyndavélum undanskildum) og fjölgaði þessum brotum á milli mánaða. Það sem af er ári hafa verið skráð um 17 prósent færri umferðarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu en að meðaltali á sama tíma síðustu þrjú ár á undan.