17 Október 2011 12:00
Um s.l. helgi voru tveir ökumenn stöðvaðir grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna á Akureyri. Farþegi í annarri bifreiðinni reyndist hafa undir höndum um 2 grömm af amfetamíni og um 20 grömm af kannabisefni. Allir voru látnir lausir að loknum skýrslutökum.
Þá var aðfararnótt 15. október s.l. tvær bifreiðar teknar traustataki á Siglufirði. Báðar bifreiðarnar voru ólæstar með lyklunum í. Annarri var ekið út af rétt norðan Siglufjarðar en hinni út af veginum skammt frá bænum Reykjarhóli í Fljótunum. Báðar bifreiðarnar eru mikið skemmdar ef ekki ónýtar. Í ljós kom að þarna höfðu tveir menn verið að verki á þrítugs- og fertugsaldri og voru þeir handteknir í Fljótunum eftir að vegfarendur höfðu komið að þeim. Þeir höfðu ætlað að koma sér til Ólafsfjarðar með þessum hætti en voru færðir til Akureyrar og vistaðir þar í fangageymslu vegna rannsóknar málsins. Þeir eru báðir grunaðir um að hafa verið undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Báðir hlutu minni háttar meiðsl þegar þeir óku bifreiðunum útaf. Þeir hafa báðir margoft komið við sögu lögreglu áður.