14 Júní 2008 12:00
Mikil umferð var í nágrenni Akureyrar í gærkvöldi og nótt og gekk hún slysalaust fyrir sig. Tuttugu og fjórir ökumenn voru stöðvaðir fyrir of hraðan akstur og sá sem hraðast ók mældist á 182 km/klst. hraða í Öxnadal. Var hann sviptur ökuleyfi á staðnum. Þá voru tveir ökumenn teknir fyrir akstur undir áhrifum vímuefna.
Fjórir voru teknir með neysluskammta af fíkniefnum á sér. Í öllum tilfellum var það fíkniefnahundur lögreglunnar sem fann efnin á fólkinu. Í einu tilfellinu fannst efni á manni sem var að koma með flugi frá Kaupmannahöfn en í hinum tilfellunum fundust efnin á við eftirlit lögreglu í miðbæ Akureyrar.
Talsverð ölvun var í miðbæ Akureyrar og mikið af fólki þar fram undir morgun. Sjö máttu gista fangageymslur lögreglunnar fyrir ölvun og óspektir. Fjórar líkamsárásir komu til kasta lögreglu en allar án meiriháttar meiðsla.
Gott ástand var á tjaldstæðunum og þurfti lögreglan lítil afskipti að hafa af gestum þar. Ekki reyndist nauðsynlegt að hafa lögregluvakt á tjaldstæðinu á Hömrum og engin útihátíðarbragur var þar eins og verið hefur undanfarin ár.