5 Maí 2015 12:20
Ökumaður bifhjóls mældist á 144 km. hraða á Reykjanesbraut í gærkvöld, þar sem hámarkshraði er 90. km. á klukkustund. Lögreglan á Suðurnesjum gaf honum stöðvunarmerki en hann gaf þá í og ók áleiðis til Keflavíkur. Sett var upp lokun á Reykjanesbrautinni við Þjóðbraut en ökumanninum tókst að komast fram hjá henni og hélt áfram ofsaakstrinum. Á Rósaselstorgi, nærri Flugstöð Leifs Eiríkssonar, hafði verið sett upp önnur lokun, en bifhjólamaðurinn ók þá á móti umferð um hringtorgið og hélt út á Sandgerðisveg. Lögregla veitti bifhjólinu eftirför og sá hvar því var beygt út á veg sem liggur að ratsjárstöðinni á Miðnesheiði. Þar nam ökumaðurinn, tæplega fertugur karlmaður, staðar og var handtekinn. Var þá afturhjólbarði hjólsins löðrandi í bensíni og olíu, sem olli því að líkindum að hann þurfti að stoppa. Hann var handtekinn og færður á lögreglustöð.