10 Maí 2010 12:00
Lögreglunni á Selfossi barst tilkynning klukkan 15:34 í dag um að maður í sviffallhlíf hafi skollið utan í hamravegg vestan í Ingólfsfjalli á móts við Hvammsveg í Nýbýlahverfi nánar tiltekið á milli Arnarnípu og Hólsstaðagils. Lögregla, sjúkralið og björgunarsveitir frá Selfossi og Hveragerði fóru þegar á staðinn. Fallhlífarmaðurinn lenti ofarlega í fjallinu og björgunarsveitarmenn fóru á staðinn með sértækan búnað. Maðurinn var ekki með lífsmarki þegar björgunarmenn komu að honum.
Félagi mannsins varð vitni að slysinu og tilkynnti strax til Neyðarlínu. Maðurinn mun hafa lagt upp af fjallinu í sviffallhlífinni en hægur vindur af norðvestri borið hann að hamrabeltinu með þessum hörmulegum afleiðingum. Hinn látni er af erlendu bergi brotinn og var búsettur á höfuðborgarsvæðinu en nafn hans er ekki hægt að gefa upp á þessari stundu.
Það óhapp varð á meðan björgunaraðgerðir stóðu yfir að eldur kviknaði í sinu við fjallið og mikinn reyk lagði yfir svæðið sem björgunarmenn voru á sem var til mikillra óþæginda. Eldurinn kviknaði út frá heitu pústkerfi bíls félaga fallhlífarmannsins sem hafði hraðað sér að staðnum eftir að hann sá félaga sinn lenda á fjallinu. Slökkvilið frá Brunavörnum Árnessýslu og Slökkviliði Hveragerðis sáu um slökkvistarf.
Annað er ekki um þetta slys að segja annað en það að lögreglan á Selfossi fer með rannsókn s-þess og við frumrannsókn var leitað Rannsóknarnefndar flugslysa en slys af þessu tagi heyrir þó ekki undir nefndina.