2 Ágúst 2007 12:00
Þegar merkjanlegur árangur af fíkniefnaeftirliti ríkislögreglustjóra og tollgæslu.
Landhelgisgæslan aðstoðar við umferðareftirlit
Embætti ríkislögreglustjóra hefur ákveðið að auka sérstaklega löggæslu um verslunarmannahelgina líkt og undanfarin ár. Sérstök áhersla verður lögð á að styrkja lögregluumdæmin við umferðareftirlit og fíkniefnalöggæslu.
Á síðustu vikum hafa embætti ríkislögreglustjóra og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu haft samstarf um skipulagt eftirlit með fíkniefnasölum með það að markmiði að draga úr framboði og sölu fíkniefna á þeim útisamkomum er haldnar verða um verslunarmannahelgina. Fíkniefnaeftirlitið vegna verslunarmannahelgarinnar hófst mánudaginn 23. júlí síðastliðinn. Síðan þá hefur verið leitað að fíkniefnum á 325 stöðum, í farangri, húsum og bílum. Þar af hafa fundist fíkniefni á 61 stað og hald langt á allar tegundir fíkniefna. Að auki hafa 30 ökumenn verið teknir undir áhrifum fíkniefna.
Fyrir og um verslunarmannahelgina munu þrjú teymi rannsóknarlögreglumanna ásamt fíkniefnaleitarhundum frá lögreglu og tollstjóranum í Reykjavík verða á ferðinni þar sem fólk safnast saman. Teymin munu verða öllum lögregluliðum landsins til aðstoðar en lögð verður sérstök áhersla á eftirlit á þeim stöðum þar sem margir koma saman.
Umferðareftirlit lögreglunnar verður aukið verulega um helgina. Lögreglubifreiðar eru búnar nýjum tækjabúnaði. Þar á meðal er stafrænn búnaður sem hljóð- og myndritar samtöl og samskipti lögreglumanna og ökumanna, búnaður er getur mælt hraða ökutækja óháð akstursstefnu lögreglubílsins ásamt fleiru. Jafnframt verður eftirlit á ómerktum bifreiðum lögreglu, úr sjálfvirkum hraðamyndavélum auk þess sem eftirlit með umferð verður úr þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Í ljósi þess að margir yfirgefa heimili sín um verslunarmannahelgi er ástæða til að minna almenning á að ganga tryggilega frá öllu áður en lagt er af stað auk þess sem æskilegt er að fá nágranna til að fylgjast með íbúðarhúsnæði sem stendur autt.
Embætti ríkislögreglustjóra óskar öllum góðrar helgar og hvetur ökumenn sérstaklega til að sýna aðgát og tillitssemi í umferðinni.