2 September 2003 12:00
Einn þáttur í vinnu lögreglunnar er að skipuleggja og sjá um forvarnastarf með það að markmiði að hafa áhrif á og ef mögulegt er að breyta því umhverfi sem leiðir af sér afbrot og slys. Lögreglan þarf í ljósi þessa að vera í virku samstarfi við ýmsa, s.s. skólayfirvöld en skólaárið er nú að hefjast og mikilvægt fyrir lögregluna að eiga gott samstarf við skólastjórnendur, kennara og nemendur.
Fyrr á þessu ári gaf embætti ríkislögreglustjóra út fræðsluefni fyrir lögreglu í samvinnu við Námsgagnastofnun, svonefndar Lögreglumöppur, til að nota í leikskólum og grunnskólum. Í möppunum er að finna nákvæma skilgreiningu og útfærslu heimsókna lögreglu í skólana í hverjum árgangi fyrir sig. Þá er einnig sérstakt efni um vímuefnaneyslu, ætlað lögreglu til kynningar til foreldra og annarra uppalenda, til að efla viðbrögð við fíkniefnaneyslu og misnotkun vímuefna. Nú hafa öll lögreglulið landsins samræmt og aðgengilegt forvarnaefni, sem þau hafa fengið þjálfun í að nota, en það auðveldar og styrkir allt forvarnastarf lögreglu í skólum.
Ríkislögreglustjóri hefur beint því til lögreglustjóranna að þeir skipuleggi skólafræðsluna fyrir veturinn í tæka tíð og í samvinnu við skólayfirvöld. Það er von embættisins að þetta leiði til markvissari fræðslu og umræðu við nemendur og styrki tengsl lögreglunnar og skólanna.
Úr forvarnarmöppu 1
Úr forvarnarmöppu 2
Úr forvarnarmöppu 3
Myndir: Júlíus Sigurjónsson