18 September 2012 12:00
Lögreglunni á Suðurnesjum var um miðnætti á sunnudagskvöld tilkynnt um grun þess efnis að ölvaður ökumaður væri að leggja af stað frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Lögreglumenn fóru þegar á vettvang og voru um áttatíu bifreiðir stöðvaðar , þar á meðal bifreið ökumannsins sem svaraði til lýsingarinnar í tilkynningunni. Allir ökumennirnir reyndust vera í góðu lagi.
Olíutunnum stolið
Tveimur olíutunnum var stolið í fyrradag frá verkstæði í Reykjanesbæ. Þeir sem þarna voru á ferð létu ekki þar við sitja heldur stálu kerru af staðnum til að flytja tunnurnar á. Starfsmaður verkstæðisins veitti því athygli, þegar hann kom til vinnu, að búið var að færa til olíutunnur á staðnum. Sá hann fljótlega hvers kyns var og að olíuþjófarnir höfðu komist inn á svæðið, þar sem tunnurnar voru geymdar, með því að klippa sundur lás.
Þrjár lendingar með veika farþega
Þrjár flugvélar hafa lent á Keflavíkurflugvelli á undanförnum dögum með veika farþega. Ein þeirra, sem var á leið frá Berlín til New York, lenti í gær með veika konu. Í fyrradag lenti önnur vél, á leið frá Abu Dabi til New York, vegna konu sem veikst hafði hastarlega um borð. Þriðja flugvélin kom frá Minneapolis á laugardag og um borð í henni var aldraður maður sem átti í öndunarerfiðleikum. Allir farþegarnir þrír voru fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og einn þaðan á Landspítalann.