7 Desember 2006 12:00
Á forsíðu Blaðsins í dag er fjallað um útgáfu eiturefnaleyfis við embætti sýslumannsins á Seyðisfirði. Er þar farið með staðlausa stafi. Ein umsókn um eiturefnaleyfi hefur verið afgreidd á árinu 2005 vegna Epoxy tjöru (hempaðrar tjöru). Var staðið að útgáfu leyfis skv. gildandi lögum og reglum og leitað umsagnar þar til bærra stjórnvalda, sem eru Umhverfisstofnun hvað varðar leyfisveitinguna og Vinnueftirlitið hvað varðar geymslu efnanna. Ekki var af hálfu Blaðsins leitað eftir upplýsingum um þá leyfisveitingu.
Embættið hefur ekki fengið til umfjöllunar umsókn um leyfi vegna þess máls sem Blaðið er nú með til umfjöllunar. Berist embættinu umsókn varðandi það tiltekna mál mun eins verða með það farið, þ.e. að leitað mun umsagnar hjá þeim aðilum sem lög kveða á um að skuli tjá sig um umsóknina eins og að ofan greinir.