27 Apríl 2007 12:00
Í grein Lúðvíks Bergvinssonar alþingismanns sem birtist í Fréttablaðinu 19. apríl sl., voru alvarlegar rangfærslur. Það sama á við um viðtal við þingmanninn sem birtist í DV 23. apríl sl. Þessar rangfærslur ber að leiðrétta.
Alþingismaðurinn gerir að umtalsefni viðtal við Harald Johannessen ríkislögreglustjóra, sem birtist í Morgunblaðinu 24. mars síðastliðinn. Í viðtalinu ræðir ríkislögreglustjóri um olíusamráðsmálið svokallaða. Alþingismaðurinn fullyrðir að málið hafi farið forgörðum í meðförum starfsmanna embættis ríkislögreglustjóra. Þetta er fjarri lagi. Samkeppnisyfirvöld vöktu athygli embættisins á rannsókn sinni á olíufélögunum. Þá þegar benti embætti ríkislögreglustjóra á þá hættu að mál sem væru í rannsókn hjá Samkeppnisstofnun nýttust ekki sem sakamál meðal annars vegna réttarstöðu starfsmanna olíufélaganna sem samkeppnisyfirvöld höfðu rætt við.
Í umræddu Morgunblaðsviðtali segir ríkislögreglustjóri Við töldum að ef samkeppnisyfirvöld hefðu komist að þeirri niðurstöðu að um sakamál væri að ræða, þá hefðu þau átt að hætta rannsókn mjög fljótlega eftir húsleitina í desember 2001 og beina málinu til ríkislögreglustjóra eða ríkissaksóknara til að koma í veg fyrir sakarspjöll. Meirihluti Hæstaréttar staðfesti lögfræðilegt álit embættisins og skoðun þess á rannsókninni.
Þá les þingmaðurinn það út úr viðtalinu að rannsókn málsins hafi hafist vegna þrýstings frá alþingismönnum. Hvergi á það stoð og óskiljanlegt hvernig hann kemst að þeirri niðurstöðu. Stjórnmálamenn höfðu engin áhrif á lögreglu eða ákæruvald í þessu máli frekar en öðrum. Ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvalds, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Sem æðsti handhafi ákæruvalds getur ríkissaksóknari kveðið á um rannsókn máls, mælt fyrir um framkvæmd hennar, m.a. gagnaöflun og fylgst með henni, sbr. 5. mgr. 27. gr. laganna. Það gerði ríkissaksóknari í þessu máli með því að fela ríkislögreglustjóra að afla gagna hjá Samkeppnisstofnun í því skyni að taka ákvörðun um hvort hefja bæri opinbera rannsókn á ætluðum refsiverðum brotum olíufélaganna og starfsmanna þeirra.
Einnig tekur þingmaðurinn fram að sjálfstætt og faglegt ákæru- og lögregluvald sé hornsteinn refsivörslukerfisins og spyr hvernig á því hafi staðið að rannsókn á olíumálinu hafi tekið fjögur ár. Hér á þingmaðurinn væntanlega við réttarvörslukerfið. Rannsókn olíumálsins tók tíma enda málið mjög viðamikið og lögfræðilega flókið. Hafa skal í huga að eitt af grundvallaratriðum sjálfstæðs og faglegs ákæru- og lögregluvalds er að fullrannsaka mál og ganga með hlutlægum hætti úr skugga um hvort eðlilegt og rétt sé að gefa út ákæru í málum. Það var gert í þessu máli og ákæra gefin út af ríkissaksóknara en lögreglurannsóknin tók rúm tvö ár.