28 Október 2011 12:00
Miklar annir eru hjá lögrelgumönnum á Selfossi um þessar mundir. Tíu einstaklingar eru í haldi eftir nóttina. Fjórir Litháar bíða í fangageymslum þar til í dag að úrskurður dómara liggur fyrir vegna gæsluvarðhaldskröfu sem lögreglustjóri lagði fram í gærkvöldi.
Í nótt áttu lögreglumenn leið um uppsveitir Árnessýslu og voru með fíkniefnahundinn Buster með sér. Þeir hleyptu hundinum út til að létta á sér. Um leið og hundurinn fór út úr lögreglubifreiðinni stefndi hann að nærliggjandi íbúðarhúsi og gaf sterka ábendingu að þar innandyra væru fíkniefni. Lögreglumenn bönkuðu upp á. Húsráðandi kom til dyra og leyndi sér ekki kannabisilmurinn sem barst út úr húsinu. Við leit í íbúðinni fundust tæplega 40 kannabisplöntur. Lögreglan lagði hald á ræktunina og búnað auk þess var húsráðandi handtekinn og yfirheyrður. Hann viðurkenndi brot sitt.
Undir morgun var tilkynnt um óeðlilegar mannaferðir við veitingastaðinn Hafið bláa við Óseyranes. Fólkið sást fara aka frá staðnum á bifreið áleiðis til Reykjavíkur þar sem lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði aksturinn. Í bifreiðinni voru fimm ungmenni og mikið magn af áfengi sem talið er að ungmennin hafi stolið á Hafinu bláa. Þau voru öll handtekin. Einn var fluttur í fangageymslu á Selfossi en fjögur í fangageymslu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Málið er í rannsókn og fólkið verður yfirheyrt í dag.