3 Ágúst 2008 12:00
Einmuna gott veður var aðfaranótt sunnudags í Vestmannaeyjum, logn og hlýtt. Gífurlegur fjöldi gesta var inn í Herjólfsdal og er talið að allt að 13.000 manns séu kominn í dalinn, sem er 3000 manns fleira en síðustu ár.
Þrátt fyrir þennan mikla fjölda komu engin alvarleg mál upp, en mikill erill var hjá lögreglu og gæslunni í dalnum. Nokkuð var um pústra og skeinur, en engin alvarleg líkamsárás var kærð eftir nóttina. Upp hafa komið 11 fíkniefnamál það sem af er hátíðinni, flest í gærkveldi og nótt.
Í dag, sunnudag er súld og ekkert hefur verið flogið frá Bakka, en þar höfðu 350 manns átt pantað flug til þess að vera með síðasta kvöldið. Hins vegar hefur verið flogið frá Reykjavík í dag og Herjólfur kemur með talsvert af fólki síðdegis og því má búast við enn fleira fólki í dalnum í kvöld.