1 Ágúst 2010 12:00
Nokkur erill var hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum í nótt við að sinna ýmsum verkefnum í tengslum við þjóðhátið án þess að nein meiriháttar mál kæmu upp. Tveir gistu fangageymslu í morgun vegna líkamsárása. Skýrslutökur yfir þeim fara fram í dag.
Nokkur fíkniefnamál komu upp í gær og í nótt. Við leit á manni á þrítugsaldri sem var að fara inní Herjólfsdal fundust 42 grömm af amfetamíni. Hann var handtekinn og færður til skýrslutöku. Hann viðurkenndi að eiga efnin og sagði þau ætluð til sölu á hátíðarsvæðinu. Um kvöldmatarleitið í gær var gerð húsleit hjá aðilum sem höfðu leigt það yfir hátíðina. Þar fundust um 10 grömm af kókaíni. Aðili í húsinu viðurkenndi að eiga efnin. Samtals eru fíkniefnamál á hátíðinni nú orðin 32 og búið er að haldleggja um 250 grömm af fíkniefnum, þar af 135 grömm af amfetamíni og 20 grömm af kókaíni.
Líkamsárársarmál þar sem af er hátíðinni eru 11. Langflest eru minniháttar, þar sem ekki er um beinbrot að ræða.
Í dag eiga bókað 1250 manns til Eyja með Herjólfi manns og á annað hundrað manns með flugi. Það má því búast við að mikill fjöldi verði á brekkusöngnum í kvöld. Ekki er fjarri lagi að áætla að um sautján þúsund manns muni taka undir með Árna Johnsen í Brekkusöngnum.