28 September 2016 11:12
Ályktun um fjármál lögreglunnar.
Eftir bankahrun 2008 varð verulegur samdráttur í fjárveitingum til lögreglunnar, lögreglumönnum fækkaði og dregið var úr drifkrafti löggæslunnar. Skipulagsbreytingar sem tóku gildi 1. janúar 2015 þar sem lögreglan var að fullu skilin frá sýslumönnum var ætlað að efla lögregluna og gera hana sjálfstæðari. Enn hafa 3,5 milljarðar sem hurfu frá lögreglunni í landinu eftir hrun ekki skilað sér til baka nema að hluta.
Verkefni lögreglunnar hafa aukist mjög og ferðamönnum hefur fjölgað jafnt og þétt síðustu ár en lögreglumönnum fækkar enn. Tekið hefur verið upp nýtt verklag og lögð áhersla á heimilisofbeldi, kynferðisbrot og mansal. Allt þetta kallar á mikla vinnu og aukinn mannskap.
Lögreglustjórafélag Íslands skorar á Alþingi, Innanríkisráðherra og Fjármálaráðherra að auka fjármagn umtalsvert til lögreglunnar til að tryggja að hún geti tekist á við þau mikilvægu verkefni sem blasa við með markvissum og öruggum hætti.
Akureyri, 23. september 2016
Fyrir hönd Lögreglustjórafélags Íslands
Úlfar Lúðvíksson
formaður Lögreglustjórafélags Íslands