23 Júlí 2003 12:00
Það er mikið um að vera í júlímánuði og margir á ferðinni að skoða landið og heimsækja vini og vandamenn. Víða um land eru uppákomur af ýmsu tagi og öllu þessu fylgir mikil umferð. En þá eykst hættan á slysum.
Umferðardeild ríkislögreglustjórans beinir eftirliti fyrst og fremst að hraðakstri og framúrakstri og notar merkta- og ómerkta bíla lögreglunnar við umferðareftirlitið, eins og ávallt kemur fram í þessum fréttapistlum. Mestur er umferðarþunginn á Vesturlandsvegi og Suðurlandsvegi og þar er hraðinn mestur. Í dagbók umferðardeildar dagana 14. til 19. júlí sl. eru skráð um 90 mál og eru flest kærur fyrir hraðakstur. Þetta veldur miklum áhyggjum þegar alkunna er að hraðakstur er einn af þremur orsakaþáttum fyrir alvarlegum slysum og banaslysum í umferðinni.
Nú þegar verslunarmannahelgin fer í hönd, sem er ein mesta ferðahelgi ársins, má reikna með mikilli umferð. Lögreglan um allt land verður með aukin viðbúnað þessa daga og það verður sérstaklega fylgst með hraðakstri. Umferðardeild ríkislögreglustjórans skorar á ökumenn að gefa sér nægan tíma til að fara á milli staða og stefna að því að allir komist heilir á leiðarenda. Tökum tillit til annarra í umferðinni, höldum jöfnum ökuhraða og stefnum að slysalausri helgi.