9 Apríl 2010 12:00
Í gærkvöldi voru tveir menn handteknir vegna gruns um kannabisræktun. Aðdragandi málsins var á þann veg að lögreglu bárust síðdegis á miðvikudag upplýsingar um að frá sumarbústað í Grímsnesi leggði megnan gróðurilm. Lögreglumen frá Selfossi fór að húsinu og leyndi sér ekki að lykt af kannabis barst út frá því. Farið var inn í húsið sem reyndist mannlaust. Þegar inn kom blasti við þakið stofugólf af afklipptum kannabisplöntum sem dreift hafði verið til þerris. Hald var lagt á plönturnar og búnað sem notaður var við þurrkunina. Grunur barst fljótlega að mönnunum tveim sem áttu dvalarstað á höfuðborgarsvæðinu. Leitað var til lögreglumanna í sérsveit Ríkislögreglustjóra til að hafa upp á mönnunum. Eftirgrennslan og leit þeirra bar þann árangur að mennirnir voru handteknir eins og fyrr er getið. Við yfirheyrslur vísaði annar mannanna á stað í Smiðjuhverfi í Kópavogi þar sem ræktunin fór fram. Hald var lagt á plöntur og búnað. Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sá um tæknirannsóknir á ræktunarstaðnum. Annar maðurinn viðurkenndi að hafa átt einn aðild að málinu en hinn hefði einungis lagt til sumarbústaðinn en hann muni ekki hafa vitað um að kannabisplönturnar hefðu verið fluttar þangað. Þá viðurkenndi maðurinn sölu á framleiðslu sinni. Rannsókn málsins er að mestu lokið. Nýtilegur hluti plantnanna vó á milli 30 og 40 kíló.