18 September 2018 10:19
Afbrot á landsvísu
Hegningarlagabrot á landsvísu 2017 voru 6% fleiri en meðalfjöldi brotanna 2014-2016. Aukningu má helst rekja til fjölgunar á brotum gegn friðhelgi einkalífs sem fjölgaði um fjórðung miðað við síðustu þrjú ár á undan. Þegar litið er nánar á tölurnar má sjá að hótanir voru stærstur hluti brotanna og húsbrot þar á eftir. Brotum gegn valdstjórninni voru 20% fleiri en síðustu þrjú ár, og má rekja það til fjölgunar á því að fyrirmælum lögreglu er ekki hlýtt.
Auðgunarbrot héldust svipuð miðað við síðustu 3 ár (voru 1% færri) en innan auðgunarbrota fjölgaði þó fjársvikum um 22%, en skv. flokkun brotanna í málaskrárkerfi lögreglu féllu fleiri þessara brota undir netbrot en síðustu ár á undan.
Þegar flokkar innan sérrefsilagabrota eru skoðaðir má sjá að fíkniefnabrot og áfengislagabrot eru 52% brotanna. Brotin voru svipuð að fjölda og síðustu 3 ár á undan. Margir ólíkir brotaflokkar falla undir sérrefsilagabrot. Þegar rýnt er nánar í aðra flokka en fíkniefnabrot og áfengislagabrot má sjá t.d. að brot gegn vopnalögum voru 528 árið 2017, en 362 árið á undan. Þá voru brot gegn lyfjalögum 330 árið 2017, eða 56% fleiri brot en árið á undan.
Umdæmi lögreglunnar eru níu, og var stærstur hluti hegningarlagabrota skráður á höfuðborgarsvæðinu eða um 78% sem er sama hlutfall og í fyrra, enda langstærsti hluti íbúa sem býr á því svæði. Þá voru einnig flest hegningarlagabrot á hverja 10 þúsund íbúa á höfuðborgarsvæðinu, eða 425. Flest sérrefsilagabrot á íbúa voru í Vestmannaeyjum.
Grunaðir/kærðir
Ríkislögreglustjóri hefur einnig birt skýrslu um grunaða/kærða einstaklinga, fyrir hegningarlaga- eða fíkniefnabrot árin 2016 og 2017. Ekki liggja alltaf fyrir upplýsingar um hver framdi brot, auk þess eru stundum margir einstaklingar grunaðir um eða kærðir fyrir sama brotið.
Fjöldi grunaðra fyrir hegningarlagabrot voru 4.124 einstaklingar, eða 9% fleiri en meðalfjöldi grunaðra árin 2014-2016. Bæði árin 2016 og 2017 voru karlar rétt tæp 80% grunaðra og er það sambærilegt við fyrri ár, þó árið 2015 hafi hlutfallið verið aðeins lægra eða 77%.
Í skýrslunni má sjá að hlutfallslega var ítrekunartíðni meiri hjá konum árin 2016 og 2017 heldur en fyrri ár en um 30% þeirra braut af sér oftar en einu sinni miðað við um 25% árin þar á undan. Um 15% braut af sér þrisvar eða oftar bæði árin sem er hærra en fyrri ár.
Afbrotatölfræði fyrir árið 2017 má finna hér.
Talnaefni (excel skrá) má finna hér.
Skýrslu um grunaða/kærða 2016-2017 má finna hér.