27 Ágúst 2020 10:29
Ríkislögreglustjóri hefur nú gefið út staðfestar tölur yfir afbrot árið 2019. Um er að ræða brot á landsvísu sem skráð voru árið 2019 og er fjöldi brota borinn saman við árin á undan.
Fjöldi hegningarlagabrota er mjög svipaður og árið á undan.
Aukning var á fjársvikum milli ára, eins og síðustu ár og er það að stærstum hluta vegna fleiri netsvika. Á heildina litið fækkaði ofbeldisbrotum milli ára en þó var aukning í einum flokki, ítrekuðu/alvarlegu heimilisofbeldi (þ.e. „endurtekið eða á alvarlegan hátt ógnað lífi, heilsu eða velferð fjölskyldumeðlims, alm. hgll. gr. 218b)“, þau fóru úr 73 brotum í 87.
Sérrefsilagabrotum hefur fjölgað ár frá ári síðustu fimm ár og var aukning árið 2019 15% þegar er við meðaltal síðustu þriggja ára á undan en 2% þegar miðað er við árið 2018. Fíkniefnabrotum fækkar lítillega milli ára en magn fíkniefna sem haldlagt var jókst til muna. Gríðarleg aukning var á haldlögðu magni af amfetamíni og kókaíni milli ára og aldrei verið haldlagt jafn mikið magn af kókaíni á einu ári eða rúm 40 kg.
Umferðarlagabrotum fækkaði um 4% milli ára, úr 78.186 í 75.071 brot. Þar munar mestu um færri brot sem tekin voru á stafrænar hraðamyndavélar, en þeim fækkaði um 17% milli ára.
Skýrsluna afbrotatölfræði 2019 má finna hér.
Hér má svo einnig finna bráðabirgðatölur fyrir fyrri hluta árs 2020. Þær sýna talsverða fækkun á umferðarlagabrotum, fíkniefna- og áfengislagabrotum það sem af er ári miðað við sama tímabil síðustu tvö ár. Heimlisofbeldi var tíðara, sem og auðgunarbrot (fjársvik). Bráðabirgðatölurnar má sjá hér.