14 Febrúar 2013 12:00
Sprengjusérfræðingar sérsveitar ríkislögreglustjóra aðstoðuðu lögregluna í Borgarfirði og Dölum við rannsókn og eyðingu á gömlu sprengiefni í gærkvöldi, miðvikudaginn 13. febrúar. Einn af sprengjusérfræðingum sveitarinnar fór á vettvang ásamt sprengjuleitarhundi og stjórnanda hans sem er sérsveitarmaður. Einnig fóru vakthafandi sérsveitarmenn á staðinn til aðstoðar við lokun og rýmingu húsa.
Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar veittu sérsveitarmönnum aðstoð við eyðingu sprengiefnisins og tókst sú vinna með ágætum. Lögreglan í Borgarnesi fer með rannsókn málsins. Ákveðnar reglur gilda um geymslu á sprengiefni og þeir einir sem til þess hafa leyfi og viðurkenndar sprengiefnageymslur mega varsla sprengiefni. Dínamít er hættulegt og ef það er geymt við slæm skilyrði og í of langan tíma verður það stórhættulegt. Fólk á ekki að hreyfa við sprengiefni heldur hafa tafarlaust samband við 112 og tilkynna um efnið.