13 Janúar 2017 10:25
Frá árinu 2001 hafa Barnaheill – Save the Children á Íslandi starfrækt ábendingalínu (Hotline) fyrir ólöglegt og óviðeigandi efni á neti. Ábendingalínan hefur verið starfrækt í samstarfi við Ríkislögreglustjóra sem tryggir aðkomu lögreglu að tilkynntu efni. Ábendingalínan er hluti af SAFT verkefninu, (Samfélag, fjölskylda og tækni) og nýtur fjárstuðnings Evrópusambandsins á grundvelli netöryggishluta samgönguáætlunar ESB. Verkefnið nýtur ennfremur styrks frá íslenska ríkinu.
Ábendingalína Barnaheilla er þátttakandi í samstarfi ábendingalína á heimsvísu í gegnum alþjóðasamtökin Inhope. Með þessu samstarfi er mögulegt að bregðast við þegar tilkynningar um ofbeldi gegn börnum berast í gegnum ábendingalínuna hvaðanæva úr heiminum. Markmið Inhope og ábendingalína sem tilheyra samtökunum er að loka fyrir aðgang að efni sem lýtur að kynferðisofbeldi gegn börnum á neti innan 48 klst. Í góðu samstarfi við hýsingaraðila og lögreglu er þess gætt að sönnunargögn glatist ekki.
Ferill mála er sá hér á landi að lögreglan móttekur ábendingar sem tilkynntar eru í gegnum hnapp sem er að finna á vefsíðu Barnaheilla og lögreglunnar og rannsakar hið tilkynnta efni. Komist lögreglan að því að efnið innhaldi kynferðisofbeldi gegn barni eða börnum, sendir hún vefslóðina áfram til Barnaheilla sem skrá upplýsingarnar í skráningarkerfi Inhope. Kerfið sem var tæknilega hannað til að rekja efni á vefsíðum, með tilliti til ábyrgðar og hýsingar, miðlar upplýsingunum inn í gagnagrunn Inhope. Þaðan berast upplýsingar til allra ábendingalínanna sem þátt taka í samstarfinu og þaðan er þeim miðlað áfram til netþjónustufyrirækja, hýsingaraðila og lögreglu í þeim tilgangi að loka fyrir aðgang að efninu. Einnig til að bera kennsl á þolendur og gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir að broti verði áfram haldið, það endurtekið eða til að koma í veg fyrir frekari dreifingu efnisins. Þær ábendingar sem berast erlendis frá til Inhope um efni sem tengist Íslandi berast Barnaheillum í gegnum gagnagrunninn og eru þær sendar áfram til lögreglu hér á landi.
Hnappurinn sem finna má á logreglan.is, barnaheill.is og saft.is
Alls hafa tæplega 5.000 tilkynningar borist í gegnum ábendingalínu Barnaheilla frá árinu 2004. Þar af voru 1.143 sem innihéldu staðfest kynferðisofbeldi gegn börnum. Árið 2014 voru alls 89 þúsund tilkynningar á alþjóðavísu skráðar í gagnagrunn Inhope sem innihéldu staðfest kynferðisofbeldi gegn börnum.
Talið er að samstarfsnetið, ábendingalínur (hotlines), Inhope, lögreglan í viðkomandi ríkjum ásamt Europol og Interpol, leiði til björgunar 6 barna á dag úr ofbeldisaðstæðum. Samstarfið ber því ótvíræðan árangur og er mikilvægur hlekkur í baráttu gegn kynferðisofbeldi gagnvart börnum í öllum heiminum.
Barnaheill – Save the children á Íslandi metur samstarfið við lögregluna mikils og vilja samtökin sjá veg ábendingalínunnar sem mestan til framtíðar. Barnaheill taka gjarnan við fyrirspurnum eða athugasemdum um hvaðeina sem lýtur að vernd barna gegn ofbeldi og hafa barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi í öllu sínu starfi þar sem sérstök áhersla er lögð á vernd barna gegn ofbeldi.