7 Október 2014 12:00
Forstjóri alþjóðalögreglunnar INTERPOL lýkur heimsókn sinni til allra aðildarlandanna, 190 talsins, hér á Íslandi.
Reykjavík, Ísland Þetta er fyrsta opinbera heimsókn Ronald K. Noble til Íslands sem forstjóri INTERPOL og með henni hefur hann undirstrikað skuldbindingu alþjóðalögreglunnar INTERPOL við öll aðildarlöndin og alþjóðlega lögreglusamvinnu en hann hafði lýst því yfir er hann tók við starfinu að hann ætlaði að heimsækja öll þátttökulöndin í sinni stjórnartíð.
Á fundi með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra, benti Noble á þá staðreynd að Ísland er með eina lægstu glæpatíðni í heiminum og hrósaði hann Íslandi fyrir þátttöku í aðgerðum sem snéru að baráttu gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi.
Meðal þeirra eru svokallaðar Pangea aðgerðir þar sem athyglin beinist að skipulögðum glæpasamtökum sem standa á bakvið sölu falsaðra lyfja í gegnum ólöglegar lyfsölur á netinu, og Opson aðgerðin sem INTERPOL og EUROPOL stóðu að saman en þar var barist gegn fölsuðum og ófullnægjandi matvælum.
Það er okkur mikill heiður að taka á móti forstjóranum hér á Íslandi þar sem hann lýkur því verkefni sínu að heimsækja öll aðildarlönd INTERPOL. Við höfum fylgst með Noble efla alþjóðlega lögreglusamvinnu og svara þörfum lögreglu í fremstu víglínu sem vinnur að því að gera heiminn að öruggari stað, sagði forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Á fundi með yfirmanni landsskrifstofu INTERPOL í Reykjavík, Sólbergi Svani Bjarnasyni og ríkislögreglustjóra, Haraldi Johannessen, var helst rætt um þær áskoranir sem lögreglan stendur frammi fyrir en einnig var rætt um þau tæki og tól sem INTERPOL hefur yfir að ráða til notkunar í baráttunni.
Í apríl tók Ísland þátt í aðgerð þar sem barist var gegn greiðslukortamisferli og ólöglegum fólksflutningum milli landa. Verkefnið var skipulagt af EUROPOL og stutt af INTERPOL en 32 lönd í Evrópu og Ameríku tóku þátt í því. Verkefnið leiddi til þess að meira en 180 einstaklingar voru stöðvaðir eða handteknir á flugvöllum í þátttökulöndunum.
Það er ekki á færi eins lands að takast á við ógnina sem stafar af alþjóðlegri glæpastarfsemi. Lögreglunni á Íslandi er því mikilvægt að starfa með INTERPOL og finna í sameiningu leiðir til þess að styrkja samstarfið í baráttunni gegn glæpum, öllum borgurum landsins til góða segir Haraldur.
Það er táknrænt að Ísland er síðasti viðkomustaður Noble á ferð hans um heiminn, en það var í Reykjavík sem hann hóf ferð sína í maí 2000 þegar hann sótti 29. Evrópuráðstefnu INTERPOL, skömmu áður en hann var settur í embætti forstjóra.
Eftir að hann var kosinn í embættið í nóvember árið 2000 lýsti Noble því yfir að hann myndi heimsækja öll aðildarlöndin á ferli sínum til þess að finna út hvaða áskoranir hvert þeirra stæði frammi fyrir.
Í næstum 15 ár hef ég starfað með Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra, alþjóðadeild embættisins og lögreglunni á Íslandi. Allir eru meðvitaðir um að á tímum þegar skipulögð, alþjóðleg glæpastarfsemi er að verða fjölbreyttari og landamæri ríkja duga ekki lengur til að hindra að brotamenn fremji glæpi eða flýji réttvísina, þá er það INTERPOL sem leggur til samskiptarásir á heimsvísu svo hægt sé að skiptast á mikilvægum upplýsingum og leita eftir aðstoð, sagði Noble.
Ísland er 190. og síðasta aðildarland INTERPOL sem ég hef nú heimsótt sem forstjóri. Á sama tíma og ljóst er að ógnirnar sem hvert land stendur frammi fyrir eru mismunandi, hafa heimsóknir mínar til allra landanna styrkt mig í þeirri trú að þau hafa öll sömu þörf á tækni og þjónustu INTERPOL til verndar borgurunum og fyrirtækjum þeirra gegn glæpum sem gætu átt uppruna sinn hvar sem er í heiminum.
Nauðsynlegt er að INTERPOL verði áfram í framlínunni við að svara þörfum lögreglu um heim allan og efla þá karla og þær konur sem starfa við löggæslu í höfuðstöðvunum, á landsskrifstofunum og í eldlínunni. Það hefur verið mér heiður og forréttindi að leiða og þjóna þessu fólki sem forstjóri, sagði Noble að lokum.
Alþjóðlegt samstarf á sviði löggæslu verður ofarlega á dagskrá 83. allsherjarþings INTERPOL í Mónakó þann 3. til 7. nóvember næstkomandi. Þar munu meðal annars funda ráðherrar innanríkis-, dóms- og öryggismála frá yfir 100 löndum.
Nánar má sjá um heimsókn Noble í fréttum fjölmiðla:
Nánar má sjá um heimsókn Noble í fréttum fjölmiðla:
http://ruv.is/frett/interpol-safnar-gognum-um-vigamennhttp://ruv.is/frett/island-notar-gagnagrunn-um-vigamennhttp://ruv.is/sarpurinn/frettir/07102014-9 http://www.visir.is/yfirmadur-interpol–netglaepir-ein-staersta-askorunin-/article/2014141009097http://www.visir.is/yfirmadur-interpol–island-sonnun-thess-ad-byssueign-tharf-ekki-ad-thyda-haa-glaepatidni/article/2014141009132 http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/10/07/arasirnar_koma_hradar_en_varnirnar/
http://ruv.is/frett/interpol-safnar-gognum-um-vigamennhttp://ruv.is/frett/island-notar-gagnagrunn-um-vigamennhttp://ruv.is/sarpurinn/frettir/07102014-9 http://www.visir.is/yfirmadur-interpol–netglaepir-ein-staersta-askorunin-/article/2014141009097http://www.visir.is/yfirmadur-interpol–island-sonnun-thess-ad-byssueign-tharf-ekki-ad-thyda-haa-glaepatidni/article/2014141009132 http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/10/07/arasirnar_koma_hradar_en_varnirnar/