12 Mars 2014 12:00
Vegna umfjöllunar framkvæmdastjóra FÍA í fjölmiðlum varðandi bakgrunnsathuganir vill ríkislögreglustjóri gera eftirfarandi athugasemdir.
Lögreglan hefur gert hátt í 7 þúsund bakgrunnsathuganir sl. ár vegna flugverndar og hafa fáir fengið neikvæða umsögn eða innan við 1%. Þar af aðeins tveir flugmenn.
Því hefur verið haldið fram að ríkislögreglustjóri hafi ekki brugðist við áliti Persónuverndar. Það er rangt. Staðreyndin er sú að framkvæmd bakgrunnsathugana var breytt að fengnu áliti hennar og fullt tillit tekið til ábendinga hennar. Um var að ræða nýja löggjöf sem reyndi á og eðlilegt að leitað væri álits Persónuverndar um lagatúlkanir. Þegar fyrir lá að löggjöfin var ekki nógu skýr um heimildir lögreglu lagði ríkislögreglustjóri áherslu á að framkvæmd yrði breytt og fest í lög hverjar heimildir lögreglu væru, hverja og hvað væri heimilt að bakgrunnsathuga og hvað geti valdið neikvæðri umsögn. Það frumvarp er nú til meðferðar Alþingis.
Umfjöllun FÍA um að ríkislögreglustjóri kalli eftir auknum heimildum til bakgrunnsathugana og strangari reglum en annars staðar þekkjast og vísi um það til evrópskra reglna er rangt.
Ríkislögreglustjóri hefur lagt áherslu á að löggjöfin sé þannig úr garði gerð að lítið geti reynt á matskennd álitamál og bent á að skýra verði hvaða viðurlögum það varði að veita lögreglu rangar upplýsingar.
Það skal áréttað að það er ekki ríkislögreglustjóri sem hefur tekið upp á því að bakgrunnsathuga flugáhafnir heldur löggjafinn. Það er eingöngu verkefni lögreglu að annast framkvæmdina eins og lög og reglugerð kveður á um. Embættið fer að lögum í þessu efni.
Þá er rétt að geta þess að ályktun FÍA frá því í febrúar sl. um aðför ríkislögreglustjóra að starfsöryggi flugmanna og afkomu félagsmanna með óvönduðum og ólögmætum vinnubrögðum við bakgrunnsathuganir á félagsmönnunum“ á ekki við nokkur rök að styðjast enda fer ríkislögreglustjóri að þeim lögum sem Alþingi hefur sett og því ekki eðlilegt af hálfu FÍA að beina spjótum sínum að embætti ríkislögreglustjóra varðandi lagasetningu Alþingis og reglugerð sem sett er með stoð í loftferðarlögum.
Bakgrunnsathugun er ekki eiginlegt löggæsluverkefni heldur í raun og veru flugöryggismál sem er á forræði flugmálayfirvalda og hlutverk ríkislögreglustjóra því einungis fólgið í aðstoð við flugmálayfirvöld og hefur lögreglan ekki sérstaklega sóst eftir þessu verkefni.
Það dæmi sem FÍA hefur nefnt um ætlaðar ástæður fyrir því að félagsmanni þess hafi verið veitt neikvæð umsögn er ekki alls kostar rétt en eins og áður hefur komið fram hafa einungis tveir flugmenn fengið neikvæða umsögn lögreglu.
Ríkislögreglustóri áréttar að bakgrunnsathuganir eru til þess ætlaðar að efla öryggi í flugi og á flugvöllum og eru samkvæmt alþjóðakröfum um flugvernd en mismunandi reglur gilda í einstökum löndum um framkvæmd bakgrunnsathugana.