13 September 2013 12:00
Sérsveit ríkislögreglustjóra hefur í áraraðir séð um þjálfun lögreglumanna og lögreglunema í mannfjöldastjórnun. Lögreglumenn í aðgerðahópum lögreglunnar eru jafnframt þjálfaðir í viðbrögðum lögreglu í erfiðum málum þar sem vopn koma við sögu. Á dögunum voru um 70 lögreglumenn frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu í slíkri þjálfun á æfingasvæði ríkislögreglustjóra á Keflavíkurflugvelli. Bráðatæknar frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins voru meðal leiðbeinenda á námskeiðinu. Námskeiðið stóð yfir í 3 daga og var það mál manna að vel hafi tekist til og lögreglumenn lagt sig alla fram við úrlausn erfiðra mála. Æfingasvæðið býður upp á mismunandi aðstæður þar sem raunveruleg dæmi eru sett upp og mikið reynir á lögreglumenn. Á næstunni verður haldið námskeið fyrir lögreglumenn af landsbyggðinni sem starfa í samskonar aðgerðahópum í sínu umdæmi.