22 Maí 2013 12:00
Lögreglan á Selfossi fór í eftirlitsflug með þyrlu Landhelgisgæslu Íslands á annan í Hvítasunnu. Flogið var austur með suðurströnd landsins og eftirlitinu sinnt, bæði úr lofti og af jörðu niðri. Í leiðinni var tekin æfing með Lögreglumönnum á Hvolsvelli þar sem æfð var mæling ökuhraða ökutækja á vegi niðri með svokallaðri jafnhraðamælingu. Slík mæling fer þannig fram að þyrlunni er flogið með sama hraða og ökutækinu sem mælt er er ekið. Áhöfn þyrlunnar þarf síðan að geta staðfest að henni sé flogið með jöfnu bili eða að bilið lengist milli hennar og ökutækisins sem mælt er. Siglingatæki þyrlunnar eru notuð til að mæla hraða hennar og unnið var eftir verklagsreglum sem settar voru af Ríkislögreglustjóra á síðasta ári um hraðamælingar með þyrlu. Við æfinguna var niðurstaða mælingar með þyrlunni borin saman við þann hraða sem hraðaratsjá lögreglubifreiðarinnar sýndi og reyndist mismunur á milli mælinganna aldrei meiri en 2 km/klst Þess má geta að við almennar hraðamælingar lögreglu með ratsjá lögreglubifreiðar og við notkun hraðamyndavéla er vikmörk upp á 3 km/klst dregin frá mældum hraða ökutækja.
Þyrla LHG hefur verið notuð við umferðareftirlit síðastliðin ár og er þá verið að nýta æfingatíma flugmanna hennar til eftirlits. Þetta hefur gefið góða raun, forvarnargildi eftirlitsins er mikið og markmið allra er að fólk komist heilt heim úr umferðinni. Gera má ráð fyrir frekara eftirliti í sumar, bæði á láglendi og inn til landsins þar sem ökumenn verða stöðvaðir og látnir sýna fram á réttindi sín og að ástand þeirra sé í lagi. Yfirferð þyrlunnar er mikil og hún til reiðu öllum lögregluliðum þegar eftirlitsflugferðir þessar eru farnar.